Bob Iger, sem starfaði sem forstjóri Disney í fimmtán ár, hefur tekið við af arftaka sínum Bob Chapek sem stýrði afþreyingarisanum í 33 mánuði. Iger, sem handvaldi Chapek sem eftirmann sinn, mun gegna starfinu til næstu tveggja ára.
Disney sagði í tilkynningu að Iger væri með „umboð frá stjórninni að leggja fram stefnu til að auka vöxt fyrirtækisins á ný“. Þá mun hann einnig vinna náið með stjórninni í leit að næsta forstjóra.
Iger, sem frestaði starfslokum sínum hjá Disney fjórum sinnum áður en hann yfirgaf fyrirtækið að lokum, sagði í tölvupósti til starfsmanna í gær að hann sé smá undrandi að vera að snúa aftur sem forstjóri.
Hlutabréf Disney hafa fallið um meira en 40% í ár, m.a. vegna vaxandi áhyggja fjárfesta um gríðarmikinn kostnað streymisveitunnar Disney+. Útgjöld til nýs myndefnis í ár nam sem dæmi 30 milljörðum dala en samkeppnin við Netflix og aðrar streymisveitur hefur reynst dýr.
Þá lenti Chapek í miklu fjölmiðlafári í vor vegna lagasetningar í Flórída um hvað kennarar mega segja um LGBT+ málefni. Deilur við fylkisstjórann Ron DeSantis bjó til neikvæðar fyrirsagnir í nokkrar vikur og kom LGBT+ starfsfólki Disney í uppnám.
Þrátt fyrir erfiðleikana endurnýjaði stjórn Disney samninginn hans Chapek í sumar. Ákvörðunin í gær um að kalla aftur í Iger markar því óvænta stefnubreytingu hjá stjórnarformanninum Susan Arnold, að því er segir í frétt Financial Times.
„Stjórnin hefur komist að þeirri niðurstöðu að nú þegar Disney er að fara inn í krefjandi tímabil af umbreytingum í iðnaðinum, þá er Bob Iger í einstakri stöðu til að leiða fyrirtækið gegnum þennan mikilvæga kafla,“ segir Arnold í tilkynningu.