Walt Disney Co hagnaðist um 162 milljónir dala á fjórða ársfjórðungi félagsins, eða sem nemur 24 milljörðum króna. Þá jókst velta Disney um 9% á milli ára og nam 20,2 milljörðum dala.
Afkoma félagsins var slakari á fjórðungnum en greiningaraðilar höfðu spáð fyrir um. Slakari afkomu má rekja til Disney+, streymisveitu Disney, sem tapaði 1,5 milljörðum dala á fjórðungnum. Um er að ræða tvöfalt meira tap en árið áður og 38% meira en greiningaraðilar höfðu spáð fyrir um.
Streymisveitan hefur tapað meira en 8 milljörðum dala frá því að hún fór í loftið fyrir þremur árum síðan, eða sem nemur 1,2 þúsund milljörðum króna. Disney+ bætti við sig 12,1 milljónum notendum og eru áskrifendur streymisveitunnar orðnir 164,2 milljónir.
Disneyland skemmtigarðarnir hafa hins vegar aldrei verið arðbærari fyrir félagið. Tekjur skemmtigarðanna námu 7,42 milljörðum dala á fjórðungnum, sem er 36% aukning frá fyrra ári.
Gengi bréfa Disney hefur lækkað um 10,5% frá opnun markaða í dag.