Hlutabréfaverð Walt Disney hefur hækkað um 5% í viðskiptum dagsins. Stórfyrirtækið tilkynnti í gærkvöldi um að það hefði ráðið Bob Iger aftur sem forstjóra en hann tekur aftur við stöðunni af Bob Chapek.
Tilkynningin kom fjárfestum í opna skjöldu en stjórn Disney hafði framlengt starfssamning Chapek í sumar. Hann tók við stöðunni árið 2020 af Iger, sem hafði þá starfað sem forstjóri í fimmtán ár. Síðasta uppgjör Disney olli vonbrigðum, ekki síst vegna gríðarmikils kostnaðar við streymisveituna Disney+.
Við opnun markaða vestanhafs í dag hækkuðu hlutabréf Disney um 9% en gengið féll aðeins aftur þegar leið á daginn. Benda má á að helstu hlutabréfavísitölur Bandaríkjanna hafa lækkað um 0,2%-1,2% í dag.