Hugbúnaðarfyrirtækið Dokobit styður nú rafræn skilríki frá Póllandi og getur þar með fengið fullgildar rafrænar undirskriftir frá Póllandi. Í tilkynningu segir félagið að þetta komi til með að gjörbreyta samstarfi á milli landanna.

Pólverjar mynda stærsta innflytjendahópinn á Íslandi, en samkvæmt Hagstofu Íslands búa fleiri en 20 þúsund Pólverjar hérlendis.

„Á sama tíma og vaxandi áhersla er á rafrænar þjónustur getur verið áskorun fyrir Pólverja hérlendis að útvega sér íslenska kennitölu og rafræn skilríki frá Auðkenni til þess að geta sótt sér ýmsa þjónustu. Einnig eru til dæmi um að stéttafélög geta illa fylgt eftir málum skjólstæðinga sem hafa flutt aftur til baka til heimalands síns og eru því ekki lengur með íslensk rafræn skilríki til þess að auðkenna sig eða undirrita skjöl.“

Dokobit, sem sérhæfir sig í rafrænum undirskriftum og auðkenningum, segir að auk pólskra rafrænna skilríkja styðji félagið skilríki frá Norðurlöndunum, Eystrasaltsríkjunum og Belgíu. Fyrir vikið geti fyrirtæki og stofnanir gert rafrænu ferlin sín aðgengilegri fyrir mun fleiri en bara þá sem hafi rafræn skilríki hjá Auðkenni.

Dokobit segir að sömuleiðis sé hægt að safna löglegum undirskriftum og skrifa undir samninga við fólk eftir að það flytur aftur til Póllands. Undirskriftirnar frá Póllandi eru fullgildar rafrænar undirskriftir sem hafa sömu réttaráhrif og þær íslensku skv. lögum nr. 55/2019.

„Stéttarfélög hafa spurt talsvert um þetta því það er algengt að þau þurfi að fylgja eftir málum fyrir félagsmenn sem eru í sumum tilfellum fluttir til baka frá Íslandi og ekki lengur með rafræn skilríki frá Auðkenni. Í því tilfelli geta þeir ekki auðveldlega auðkennt sig til að fylgjast með stöðu sinna mála, sent fylgigögn á öruggan hátt eða undirritað skjöl, t.d. til að veita umboð til gagnaöflunar," segir Ólafur Páll Einarsson, framkvæmdastjóri Dokobit á Íslandi.

„Við finnum fyrir ákveðinni ábyrgð þar sem við erum eina fyrirtækið á Íslandi sem getur boðið upp á fullgildar rafrænar undirskriftir á milli landa. Þess vegna finnst okkur mikilvægt og gott að geta núna sinnt stærsta hóp innflytjenda á Íslandi með þessari mikilvægu þjónustu.“