Evran hefur veikst um meira en 10% gagnvart bandaríska dollaranum í ár og er nú við það að verða ódýrari heldur en dollarinn. Gjaldmiðlarnir tveir náðu fyrr í dag jafngengi (e. parity) í fyrsta sinn í 20 ár en evran hefur styrkst aftur frá því í morgun.

Sjá einnig: Evran ekki veikari í 20 ár

Meðal ástæðna fyrir gengislækkun evrunnar gagnvart dollaranum eru væntingar fjárfesta um að Seðlabanki Evrópu muni ekki ráðist ekki í jafnmiklar vaxtahækkanir og Seðlabanki Bandaríkjanna. Stríðið í Úkraínu og aðgerðir Rússa í orkumálum geri Seðlabanka Evrópu erfiðara fyrir að bregðast við vaxandi verðbólgu.

Í frétt MarketWatch segir að tölur um bandaríska vinnumarkaðinn sem birtar voru á föstudaginn síðasta hafi ýtt undir spár um að önnur 0,75 prósentu vaxtahækkun væri í vændum frá bandaríska seðlabankanum. Þar kom fram að störfum hafi fjölgað um 372 þúsund í júní og atvinnuleysi mældis áfram 3,6%.

„Sögulega þegar væntingar um hagvöxt á evrusvæðinu dragast saman um eina prósentu þá leiðir það yfirleitt til 2 prósentu veikingar á evrunni gagnvart dollaranum,“ er haft eftir greinanda hjá Goldman Sachs. Hann sagði hafnframt að markaðurinn virðist gera ráð fyrir meiri efnahagssamdrætti á evrusvæðinu en áður.