Bandaríkjadollar hefur lækkað í verði í morgun eftir fregnir um að ríkisstjórn Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, sé með það til skoðunar að draga úr umfangi áformaðra tolla á innfluttar vörur.

Vísitala sem fylgir gengi dollarsins gagnvart körfu af sex stórum gjaldmiðlum, lækkaði um 1% í morgun eftir að The Washington Post greindi frá því að mögulegir tollar kunni að vera takmarkaðir við mikilvægar innflutningsvörur.

Í nóvember lofaði Trump almennum tollum upp 10 eða 20% á allan innflutning frá viðskiptaþjóðum Bandaríkjanna, þar á meðal aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Framkvæmdastjóri gjaldeyrismarkaða hjá ING segir við Financial Times að fregnirnar í morgun hefðu komið af stað „léttishækkunum“ (e. relief rally) á gengi evrunnar gagnvart dollar. Það stafi m.a. af vonum um að evrópski bílaiðnaðurinn gæti sloppið við tolla auk þess að verðbólguáhrif tollanna gætu orðið minni en fyrst var óttast að hans sögn.

Hlutabréf evrópskra bílaframleiðanda hafa hækkað það sem af er degi eftir talsverðar lækkanir á síðustu mánuðum m.a. vegna ótta um mögulega tolla ríkisstjórnar Trump. Stoxx Europe 600 Automobiles & Parts vístalan hefur þannig hækkað um hátt í 3% og hlutabréfaverð BMW hefur hækkað um 4,3% í dag.

Evran hækkaði um allt að 1,1% gagnvart dollar þegar mest lét í dag og hefur þar með rétt aðeins úr kútnum eftir að hafa náð sínu lægsta gildi á undanförnum tveimur áhrifum, sem rekja má meðal annars til áhyggja um tollastríð. Pundið hefur einnig hækkað um 0,7% gagnvart dollar það sem af er degi.