Hæstiréttur mildaði í dag dóm allra sakborninga í BK-44 málinu. Birkir Kristinsson og Elmar Svavarsson voru dæmdir til fjögurra ára fangelsisvistar, meðan Jóhannes Baldursson fékk dóm sinn mildan í þrjú ár, meðan Magnús Arnar Arngrímsson hlaut dóm upp á tvö ár.
Fimm hæstaréttardómar dæmdu í málinu. Það voru þau Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.
„Til þessara viðskipta gekk ákærði Birkir í því skyni að njóta af þeim fjárhagslegs ávinnings svo sem reyndin varð að nokkru. Brot ákærðu Elmars, Jóhannesar og Birkis gegn lögum nr. 108/ 2007 voru stórfelld og beindust bæði að þeim sem áttu í viðskiptum á skipulegum verðbréfamarkaði og öllum almenningi," segir í dómi Hæstaréttar.
„Háttsemi allra ákærðu varðaði gríðarlegar fjárhæðir og varð Glitnir banki hf. fyrir stórfelldu tjóni af gerðum þeirra. Þá var brot ákærða Birkis samkvæmt VI. kafla ákærunnar stórfellt. Eiga ákærðu sér engar málsbætur, en þáttur þeirra í brotunum var á hinn bóginn misjafn."
Dæmdir árið 2014
Sumarið 2014 var dómur kveðinn upp yfir fjórum fyrrum starfsmönnum Glitnis. Þeir voru dæmdir í fimm og fjögurra ára fangelsi í héraðsdómi.
Á meðal dæmdra í málinu var Birkir Kristinsson, sem hlaut fimm ára dóm fyrir aðild sína að BK-44 málinu svokallaða. Viðskiptablaðið fjallaði um málið á þeim tíma.
Fjórmenningarnir voru ákærðir fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og brot á lögum um ársreikninga í tengslum við 3,8 milljarða lánveitingu Glitnis til félagsins BK-44 í nóvember 2007.
Sakborningar í málinu eru Elmar Svavarsson, Magnús A. Arngrímsson, Jóhannes Baldursson og fyrrnefndur Birkir. Magnús hlaut fjögurra ára dóm meðan Elmar og Jóhannes hlutu sama dóm og Birkir upp á fjögur ár.