Bandarískur dómari hefur komið í veg fyrir kaup grínfréttasíðunnar The Onion á síðunni Infowars, sem var áður í eigu Alex Jones. Dómarinn í málinu, Christopher Lopez, segir að uppboðið hafi ekki náð að skila inn öllum bestu mögulegu tilboðum.

The Onion tilkynnti í síðasta mánuði að það myndi kaupa gömlu vefsíðu Alex Jones sem fór á uppboð eftir að Jones var gert að greiða 1,4 milljarða dala í skaðabætur.

Tilboð grínfréttasíðunnar naut jafnframt stuðnings frá þeim fjölskyldum sem misstu börn í Sandy Hook-skotárásinni. Jones hafði lengi vel neitað að skotárásin átti sér stað og taldi árásina vera tilraun af hálfu bandarískra stjórnvalda til að taka byssur frá Bandaríkjamönnum.

Dómarinn sagði að skiptastjórinn sem sá um uppboðið hefði átt að hvetja til fleiri tilboða milli The Onion og fyrirtækjanna sem tengjast Jones í stað þess að biðja um eitt lokatilboð á uppboðinu.