Domino's á Íslandi hefur samið við hið nýstofnaða hugbúnaðarfyrirtæki Apparatus um þróun og rekstur á snjallforriti Domino‘s.
Í tilkynningu segir að Ísland sé eitt söluhæsta land í heimi af öllum markaðssvæðum Domino‘s og að snjallforrit veitingastaðarins spili stóran hluta í því. Um 15.000 pantanir eru afgreiddar í gegnum snjallforritið í hverri viku, en um 80 þúsund Íslendingar nota það reglulega.
„Það er mikill heiður fyrir okkur að fá Domino‘s appið í hendur til áframhaldandi þróunar og mikil traustsyfirlýsing við teymið okkar. Domino‘s er eitt vinsælasta app á Íslandi, mjög tæknilega þróað og býður viðskiptavinum sínum framúrskarandi notendaupplifun,” segir Garðar Þorsteinsson, sem sér um viðskiptaþróun og ráðgjöf hjá Apparatus.
Fyrirtækið þróar meðal annars lausnir fyrir Lyfju og Atlantsolíu, auk annarra fyrirtækja.
„Domino‘s hefur átt mjög farsælt samstarf undanfarin ár við Vettvang, systurfyrirtæki Apparatus, um þróun veflausna. Þarna eru sömu aðilar að baki sem við treystum vel. Við náum líka ákveðnum samlegðaráhrifum þar sem appið og vefurinn þurfa að ganga í takt hvað varðar þróun,” segir Egill Þorsteinsson, forstöðumaður stafrænnar þróunar hjá Domino‘s.