Domino's hefur hætt rekstri í Kringlunni, en pizzakeðjan hafði verið með útibú á Stjörnutorgi frá árinu 1997, eða í 25 ár. Magnús Hafliðason, forstjóri Domino's Pizza á Íslandi, segir í samtali við Viðskiptablaðið að það hafi legið fyrir í nokkurn tíma að Domino's myndi kveðja Kringluna eftir miðjan nóvember vegna framkvæmda á þriðju hæð Kringlunnar.
„En sökum þess að Kringlan þurfti að fá bakrýmið hjá okkur afhent fyrr, svæði þar sem allt tölvukerfið okkar er staðsett, var því miður ekki annar kostur í stöðunni en að loka versluninni með nokkurra daga fyrirvara,“ segir Magnús.
Til stendur að endurskipuleggja og breyta þriðju hæð Kringlunnar. Fela breytingarnar meðal annars í sér nýja mathöll, búbblublómaskóla og ýmsa afþreytingu, að því er kemur fram í grein Fréttablaðsins frá því í maí á síðasta ári. Þá var greint frá því að breytingarnar myndu kosta um einn milljarð króna og taka um 18-24 mánuði.
Magnús segir leiðinlegt að kveðja Kringluna með svo stuttum fyrirvara. „Þetta er staður sem margir í nágrenninu, til dæmis námsmenn í Verzló og starfsfólk Kringlunnar, voru að nota.“
Spurður að því hvort standi til að opna nýjan Domino's stað í nágrenninu svarar Magnús því neitandi. „Við erum samt alltaf að leita af nýjum stöðum, og erum með opinn hug.“