Bernard Arnault, forstjóri og aðaleigandi lúxusvöruframleiðandans LVMH, hefur ráðið dóttur sína Delphine til að stýra tískufyrirtækinu Christian Dior. Samstæðan tilkynnti um uppstokkun á framkvæmdastjórn sinni í dag.
Ítalinn Pietro Beccari, sem hefur gegnt stöðu forstjóra Dior frá árinu 2018, mun nú taka við Louis Vuitton, flaggskipi LVMH. Í umfjöllun Financial Times segir að Beccari hafi á síðustu fjórum árum tekist að þrefalda árlega sölu Dior, nærst stærsta vörumerkis LVMH, upp í tæplega 10 milljarða evra.
Breytingarnar eru sagðar hluti af áætlun hins 73 ára gamla Bernard Arnault um stjórnskipan félagsins eftir að hann sest í helgan stein. Honum hefur tekist að gera LVMH að verðmætasta fyrirtæki Evrópu.
FT hefur eftir greiningaraðila á lúxusmarkaðnum að slíkar áætlanir hafi skipt sköpum fyrir velgengni helstu vörumerkja LVMH á síðustu 20 árum og því séu breytingarnar sem kynntar voru í dag mikilvægar.
Delphine er elst af fimm börnum Arnault. Hún tekur nú við stjórnartaumum Dior eftir að hafa verið næstráðandi hjá Louis Vuitton frá árinu 2013.
Þrír af sonum Bernard Arnault – Antoine, Alexandre og Frédéric – gegna allir stjórnendastöðum hjá LVMH samstæðunni.
Arnault fjölskyldan er efst á auðmannalista Forbes en auðæfi hennar eru metin á 203 milljarða dala. Financière Agache, eignarhaldsfélag fjölskyldunnar, á 48% hlut í LVMH.