Norvik hefur undirritað samning um sölu á öllu hlutafé lettnesku sögunarmyllunnar Vika Wood SIA til austurríska félagsins HS Timber Group. Viðskiptin eru enn háð samþykki samkeppnisyfirvalda og er gert ráð fyrir að salan gangi í gegn á fyrsta ársfjórðungi 2025, að því er segir í tilkynningu Norviks.

Norvik er eigandi Vika Wood í gegnum eignarhaldsfélag sitt Bergs Timber AB í Svíþjóð. Vika Wood var stofnað árið 1995 en Norvik keypti félagið árið 2006.

Vika Wood er staðsett nálægt Talsi í Vestur-Lettlandi. Árleg framleiðslugeta sögunarmyllunnar er allt að 300.000 rúmmetrar af ofnþurrkuðu söguðu timbri og hjá félaginu starfa 140 starfsmenn.

„Vika Wood er ein skilvirkasta sögunarmylla Eystrasaltssvæðisins og mikilvægur vinnuveitandi á svæðinu.“

Salan á Vika Wood er sögð í takt við stefnu Bergs Timber um að einbeita sér að framleiðslu á fullunnum timburvörum. Báðir aðilar hafa samþykkt að fara með skilmála viðskiptanna sem trúnaðarmál.

Norvik, eignarhaldsfélag í eigu Jóns Helga Guðmundssonar og fjölskyldu, hefur verið stærsti hluthafi Bergs Timber frá árinu 2016. Eignarhluturinn kom til í kjölfar sölu Norvik á erlendri starfsemi sinni til Bergs.

Norvik, sem átti þá um 59% hlut, lagði fram yfirtökutilboð í Bergs Timber AB og eignaðist í kjölfarið sænska fyrirtækið árið 2023. Bergs Timber var afskráð úr sænsku kauphöllinni í árslok 2023.