Slitum F fasteignafélags, dótturfélags Seðlabanka Íslands, lauk á dögunum og hefur eignum félagsins verið ráðstafað til Seðlabankans, að því er kemur fram í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu.
Á hluthafafundi þann 5. apríl síðastliðinn voru lokareikningar félagsins samþykktir „einróma“ sem og frumvarp til úthlutunargerðar í félaginu.
Steinar Þór Guðgeirsson og Haukur C. Benediktsson voru kjörnir í skilanefnd F fasteignafélags í ágúst 2019. Skilanefndin hefur nú lokið störfum sínum.
Eignir F fasteignafélags voru bókfærðar á 913 milljónir króna í árslok 2022 og samanstóðu nær alfarið af handbæru fé. Eigið fé félagsins var um 896 milljónir. Í nýrri ársskýrslu Seðlabankans kemur fram að á hluthafafundi F fasteignafélags í árslok 2022 var samþykkt lækkun hlutafjár um 588 milljónir króna sem kom til framkvæmda í fyrra.
Í ársreikningi F fasteignafélags fyrir árið 2022 kemur fram að fjögur þýsk dótturfélög - Blafell Immobilien GmbH, Svarta Immobilien GmbH, Esja Immobilien GmbH og Kurfo-Investment GmbH – voru undanskilin í samstæðureikningsskilunum þessum sökum þess að ekki var unnt að afla nauðsynlegra upplýsinga tímanlega og án óeðlilegs kostnaðar. Bókfært verð þessara dótturfélaga var núll þar sem unnið var að að slitum þeirra.
Fyrir rúmum mánuði síðan greindi Morgunblaðið frá því að F fasteignafélag hefði hafnað beiðni blaðsins um aðgang að gögnum dótturfélaga Seðlabankans, Eignasafni Seðlabanka Íslands (ESÍ) og Hildu. Umrædd félög héldu utan um kröfur, veð og fullnustueignir sem komist höfðu í hendur Seðlabankans á árunum eftir fall viðskiptabankanna haustið 2008. Gögnin voru í geymslu F fasteignafélags.
Steinar Þór Guðgeirsson, sem var formaður skilanefndar F fasteignafélags, hafnaði beiðni Björns Jóns Bragasonar, sem unnið hefur að bókarskrifum um starfsemi Seðlabankans, um afhendingu upplýsinga um félögin. Björn kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar upplýsingamála, sem beindi því til Steinars Þórs að taka beiðnina til efnislegrar meðferðar. Steinar Þór hafnaði beiðninni á ný og hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar.