Starfsemi er hafin á ný hjá einu stærsta hafnarfyrirtæki Ástralíu eftir stórfellda netárás sem varð til þess að starfsemi lá niðri alla helgina. Fyrirtækið, DP World Australia, hefur umsjón með 40% af öllum vöruflutningum inn eða út úr landinu.
Að sögn BBC hefur atvikið ekki haft áhrif á vöruframboð til helstu stórmarkaða Ástralíu.
DP World Australia er í eigu DP World-samstæðunnar, sem er með höfuðstöðvar í Dúbaí. Samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu er gert ráð fyrir að um það bil 5.000 gámar verði fluttir út úr höfnum Ástralíu í dag.
Fyrirtækið hefur einnig orðið fyrir truflunum vegna verkfalls sem hefur staðið yfir frá því í október. Starfsmenn hafa stundað sólarhringsverkfall og neita að afferma vörubíla. Þá hefur verkalýðsfélagið Maritime Union of Australia einnig tilkynnt að verkfallið yrði framlengt til 20. nóvember.
„Það að starfsemin sé hafin á ný þýðir ekki að þessu atviki sé lokið. Líklegt er að rannsókn DP World Australia og áframhaldandi úrbótastarf muni halda áfram um nokkurt skeið,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Stjórnvöld hafa ekki enn borið kennsl á árásaraðila en árásin hefur aukið ótta Ástrala um raskanir á vöruflutningum yfir jólatímabilið. Þjóðin hefur séð mikla aukningu á netárásum frá því seint á síðasta ári og er búist við nýjum fyrirhuguðum reglugerðum frá stjórnvöldum í næstu viku.