Hlutabréfaverð Tesla hefur fallið um 6% það sem af er degi eftir að rafbílaframleiðandinn tilkynnti í gær um fjölda afhentra bíla, sem voru undir væntingum Wall Street.

Hlutabréfaverð Tesla hefur nú fallið um meira en 70% á einu ári og er markaðsvirði félagsins nú um 361 milljarður dala.

Tesla afhenti 1,31 milljón bifreiða á síðasta ári sem er um 40% aukning frá árinu 2021. Félagið hefði þurft að afhenda fleiri en 1,4 milljónir bifreiða til að ná upphaflega markmiði sínu um 50% aukningu. Markaðsaðilar áttu von á að fjöldinn yrði í kringum 1,34 milljónir.

Greinandi hjá JPMorgan, Ryan Brinkman, færði niður afkomuspá og verðmat á Tesla eftir að rafbílaframleiðandinn tilkynnti um niðurstöðurnar í gær.

Bandaríski hlutabréfamarkaðurinn opnaði annars grænn í dag en helstu hlutabréfavísitölur markaðarins hafa hækkað um 0,1%-0,5% í fyrstu viðskiptum. Þá hefur evrópska Stoxx Europe 600 vísitalan og breska FTSE 100 vísitalan hækkað um 1,5%.