Lántökuáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið hljóðar upp á 16,5 milljarða en á fyrstu sex mánuðum ársins hækkuðu langtímaskuldir um rúma 2 milljarða og var ný lántaka 6,96 milljarðar. Í lok júní var borgin með yfirdráttarlán upp á 1,6 milljarða.
Lítill áhugi fjárfesta á skuldabréfum borgarinnar á því álagi sem borgin hefur talið eðlilegt hefur óneitanlega átt þátt í því að borgin ákvað að sækja um 100 milljóna evra rekstrarlán hjá Þróunarbanka Evrópuráðsins (CEB) í vor.
Borgarráð samþykkti í júlí að veita fjármála- og áhættustýringarsviði heimild til að draga allt að 50 milljónir evra af láninu en samkvæmt svörum sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs við fyrirspurn Viðskiptablaðsins hefur ekki verið dregið á lánið enn þá.
Það standi þó til að gera það í þessum mánuði.
Samkvæmt skilmálum lánsins þarf borgin að leggja fram óskir um tímalengd og hvort vextir eigi að vera fastir eða breytilegir.
Borgin sótti aðeins 316 milljónir króna í skuldabréfaútboði í apríl. Aðeins bárust tilboð fyrir 474 milljónir króna að söluvirði.
Selt var fyrir 215 milljónir í RVK 53 á ávöxtunarkröfunni 3,45%, en 101 milljón í RVKN 35 á kröfunni 8,85%. Krafan á óverðtryggða bréfinu tók við sér í kringum árshlutauppgjör borgarinnar í síðustu viku og fór úr 8,60% á miðvikudaginn niður í 8,403% á mánudaginn.
Þegar krafan lækkar hækkar virði bréfanna og gæti því verið að áhugi sé að vakna að nýju á bréfunum eftir árshlutauppgjör í síðustu viku.
Fjármála- og áhættustýring borgarinnar mun einnig gera gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamninga við innlenda viðskiptabanka vegna lánsins og því má áætla einhvern kostnað við gengisvarnir.
Krafan á skuldabréf Þróunarbanka Evrópuráðsins sem eru á gjalddaga árið 2030 er nú um 2,87% og bankinn lánar að jafnaði með 45 til 50 punkta álagi og því ætti lánið að vera á hagstæðum kjörum ef litið er fram hjá gjaldeyrisáhættunni.
Gengi krónunnar hefur haldist nokkuð stöðugt í ár en krónan hefur þó veikst um rúm 2% gagnvart evru frá þeim tíma sem borgarráð ákvað að draga á lánið.
Evran hefur styrkt sig gagnvart krónu um tæp 6% á árinu. Eðli málsins samkvæmt eru nær allar tekjur og útgjöld borgarinnar í íslenskum krónum.