Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur kynnt nýjan þjónustusamning við Ríkisútvarpið ohf. (RÚV) sem undirritaður var á dögunum. Gildistími samningsins er fjögur ár.
Í viðauka við þjónustusamninginn er yfirlýsing Lilju og Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra þar sem segir að unnið verði að því að minnka umsvif Ríkisútvarpsins á samkeppnismarkaði á samningstímanum.
„Unnið verður að því á gildistíma samningsins að minnka umsvif Ríkisútvarpsins á samkeppnismarkaði, t.d. með frekari takmörkunum á birtingu viðskiptaboða og/eða með því að breyta eðli og umfangi auglýsingasölu. Unnið verður að útfærslu stafrænna lausna sem gera viðskiptavinum kleift að panta auglýsingar á netinu,“ segir í yfirlýsingunni.
„Komið verður til móts við mögulegt tekjutap Ríkisútvarpsins af minnkandi umsvifum á samkeppnismarkaði með það að markmiði að Ríkisútvarpið geti áfram sinnt sínu lögbundna hlutverki og uppfyllt ákvæði þjónustusamnings.“
Þá er einnig miðað við að umfang starfsemi Ríkisútvarpsins á landsbyggðinni aukist um 10% á samningstímabilinu.
Í yfirlýsingunni er bent á að í lögum um Ríkisútvarpið er tilgreint að félagið skuli gæta hófsemi í birtingu auglýsinga og ýmsar skorður settar á birtingu þeirra. Hömlur eru á kostun, rofi þátta, vöruinnsetningu og birtingum á vef, auk þess sem aðeins er heimilt að senda út 8 mínútur af auglýsingum á hverjum klukkutíma í sjónvarpi.
Dótturfélagið RÚV sala ehf. annast fyrir móðurfélagið þá starfsemi sem telst til samkeppnisrekstrar, þ.m.t. sölu og móttöku auglýsinga.