Breska ríkisstjórnin íhugar að draga úr fjármögnun til kolefnisföngunar og -geymslu í komandi fjárlögum vegna áhyggna um kostnað og áhættu sem fylgir tækninni, samkvæmt Financial Times.
Fjármálaráðuneytið hefur sett stefnu stjórnvalda í þessum málefnum í endurskoðun, en varað er við því að svona tilraunaverkefni gætu reynst of dýr fyrir skattgreiðendur og neytendur.
Í október síðastliðnum tilkynnti ríkisstjórnin að 21,7 milljörðum punda yrði varið í kolefnisföngun á næstu 25 árum.
Fjármagnið fór hins vegar einungis til tveggja svæða, Teesside og Merseyside, á meðan svæði sitja eftir í óvissu bíða eftie frekari fjárveitingum.
Að sögn heimildarmanna FT innan ríkisstjórnarinnar eru litlar líkur á að þessi verkefni fái fjármagn þegar fjárlögin verða endurskoðuð í júní.
Óvissa um hagkvæmni og áhrif á raforkuverð
Kolefnisföngun felur í sér að fanga koltvísýring, þjappa honum og dæla honum neðanjarðar, oft í úreltar olíu- og gaslindir, til að koma í veg fyrir að hann sleppi út í andrúmsloftið.
Þó að tæknin sé talin nauðsynleg til að ná loftslagsmarkmiðum hafa þingmenn og sérfræðingar varað við að hún sé bæði fjárhagslega áhættusöm og tæknilega óreynd í stórum stíl.
Fjárveitinganefnd breska þingsins (PAC) sagði í nýrri skýrslu að innleiðing kolefnisföngunar muni líklega hækka raforkureikninga neytenda og krefjast umtalsverðra fjárfestinga frá ríkinu.
Nefndin hvatti ráðherra til að endurskoða hvort þessi leið væri yfirhöfuð raunhæf, sérstaklega í ljósi aukins framfærslukostnaðar almennings.
Óraunhæf markmið og pólitísk forgangsröðun
Sarah Jones orkumálaráðherra viðurkenndi nýlega að fyrri markmið um að fanga 20–30 milljón tonn af koltvísýringi árlega fyrir árið 2030 væru „ekki lengur raunhæf“.
Hún sagði ónóga fjármögnun fyrri ríkisstjórnar hafa torveldað framvindu verkefnanna.
Sir Geoffrey Clifton-Brown, formaður fjárveitinganefndar, gagnrýndi stefnu stjórnvalda og sagði að þau væru að „veðja á óreynda tækni“ og að byrðin lenti alfarið á skattgreiðendum. „Ef verkefnin bera árangur mun almenningur ekki hagnast beint á þeim,“ bætti hann við.
Framtíð iðnaðar í húfi
Kolefnisföngun er talin lykilatriði til að tryggja framtíð þungaiðnaðar á svæðum eins og Humber.
Heimildarmenn FT innan orkugeirans segja að án þessarar tækni sé ómögulegt að ná loftslagsmarkmiðum fyrir árið 2030.
Orkumálaráðuneytið segir að kolefnisföngun sé „nauðsyn, ekki valkostur“ ef tryggja eigi störf í iðnaðarhjarta Bretlands. Ákvörðun um frekari fjárveitingar verði tekin síðar á árinu.
Á Íslandi hefur kolefnisförgun verið í brennidepli með þróun Carbfix-verkefnisins, þar sem koltvísýringur er bundinn í bergi.
Verkefnið hefur vakið athygli á heimsvísu fyrir frumkvöðlastarf sitt, en á sama tíma hefur það leitt til áhyggna um langtímaáhrif á umhverfi og hagkvæmni verkefnisins.
Kostnaður við að byggja upp nauðsynlega innviði er verulegur og gæti skapað mikla fjárhagslega byrði á næstu árum.
Þá hafa sérfræðingar bent á að ef tæknin reynist ekki eins árangursrík eða sjálfbær og vonast er til, gæti það sett í uppnám framtíðaráætlanir Íslands um kolefnishlutleysi.
Áhyggjur snúa einnig að því hvernig verkefnið verður fjármagnað til lengri tíma – hvort sem það verði með opinberum styrkjum eða auknum álögum á fyrirtæki og neytendur.
Þrátt fyrir þessar áskoranir telja margir að kolefnisförgun sé óumflýjanlegur hluti af leið Íslands að kolefnishlutleysi, en nauðsynlegt sé að tryggja að framvinda slíkra verkefna byggi á varfærni og ítarlegu mati á langtímaáhrifum.
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti á síðasta fundi sínum í desember að hækka lánalínu Carbfix um fimm milljarða króna.
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sat hjá og lagði fram eftirfarandi bókun:
„Fram kom í umræðum að hækkun lánalínunnar var ráðgerð í 5 ára fjárhagsáætlun Orkuveitunnar en áætlaður endurgreiðslutími lánalínunnar hafi þó færst aftur. Gert var ráð fyrir að lánalínan yrði endurgreidd árið 2027. Tilurð lánalínunnar var aðlögun áforma Carbfix að nýjum aðstæðum en áður en lengra er haldið telur undirrituð að Orkuveitan og stjórn hennar þurfi að setja sér ramma utan um framlög sín til Carbfix verði þau í formi láns- eða hlutafjár og sá rammi þarf að vera hluti af langtímastefnumótun Orkuveitunnar. Í upphafi skyldi endinn skoða,“ segir í bókun Ragnhildar.