Breska ríkis­stjórnin íhugar að draga úr fjár­mögnun til kol­efnis­föngunar og -geymslu í komandi fjár­lögum vegna áhyggna um kostnað og áhættu sem fylgir tækninni, sam­kvæmt Financial Times.

Fjár­málaráðu­neytið hefur sett stefnu stjórn­valda í þessum málefnum í endur­skoðun, en varað er við því að svona til­rauna­verk­efni gætu reynst of dýr fyrir skatt­greiðendur og neyt­endur.

Í október síðastliðnum til­kynnti ríkis­stjórnin að 21,7 milljörðum punda yrði varið í kol­efnis­föngun á næstu 25 árum.

Fjár­magnið fór hins vegar einungis til tveggja svæða, Teessi­de og Mer­s­eysi­de, á meðan svæði sitja eftir í óvissu bíða eftie frekari fjár­veitingum.

Að sögn heimildar­manna FT innan ríkis­stjórnarinnar eru litlar líkur á að þessi verk­efni fái fjár­magn þegar fjár­lögin verða endur­skoðuð í júní.

Óvissa um hag­kvæmni og áhrif á raf­orku­verð

Kol­efnis­föngun felur í sér að fanga kol­tvísýring, þjappa honum og dæla honum neðanjarðar, oft í úreltar olíu- og gas­lindir, til að koma í veg fyrir að hann sleppi út í andrúms­loftið.

Þó að tæknin sé talin nauð­syn­leg til að ná lofts­lags­mark­miðum hafa þing­menn og sér­fræðingar varað við að hún sé bæði fjár­hags­lega áhættusöm og tækni­lega óreynd í stórum stíl.

Fjár­veitinga­nefnd breska þingsins (PAC) sagði í nýrri skýrslu að inn­leiðing kol­efnis­föngunar muni lík­lega hækka raf­orku­reikninga neyt­enda og krefjast um­tals­verðra fjár­festinga frá ríkinu.

Nefndin hvatti ráðherra til að endur­skoða hvort þessi leið væri yfir­höfuð raun­hæf, sér­stak­lega í ljósi aukins fram­færslu­kostnaðar al­mennings.

Óraun­hæf mark­mið og pólitísk for­gangs­röðun

Sarah Jones orkumálaráðherra viður­kenndi ný­lega að fyrri mark­mið um að fanga 20–30 milljón tonn af kol­tvísýringi ár­lega fyrir árið 2030 væru „ekki lengur raun­hæf“.

Hún sagði ónóga fjár­mögnun fyrri ríkis­stjórnar hafa tor­veldað fram­vindu verk­efnanna.

Sir Geof­frey Clifton-Brown, for­maður fjár­veitinga­nefndar, gagn­rýndi stefnu stjórn­valda og sagði að þau væru að „veðja á óreynda tækni“ og að byrðin lenti al­farið á skatt­greiðendum. „Ef verk­efnin bera árangur mun al­menningur ekki hagnast beint á þeim,“ bætti hann við.

Framtíð ­iðnaðar í húfi

Kol­efnis­föngun er talin lykil­at­riði til að tryggja framtíð þunga­iðnaðar á svæðum eins og Hum­ber.

Heimildar­menn FT innan orku­geirans segja að án þessarar tækni sé ómögu­legt að ná lofts­lags­mark­miðum fyrir árið 2030.

Orkumálaráðu­neytið segir að kol­efnis­föngun sé „nauð­syn, ekki val­kostur“ ef tryggja eigi störf í iðnaðar­hjarta Bret­lands. Ákvörðun um frekari fjár­veitingar verði tekin síðar á árinu.

Á Ís­landi hefur kol­efnis­förgun verið í brenni­depli með þróun Car­b­fix-verk­efnisins, þar sem kol­tvísýringur er bundinn í bergi.

Verk­efnið hefur vakið at­hygli á heims­vísu fyrir frum­kvöðla­starf sitt, en á sama tíma hefur það leitt til áhyggna um langtímaáhrif á um­hverfi og hag­kvæmni verk­efnisins.

Kostnaður við að byggja upp nauð­syn­lega inn­viði er veru­legur og gæti skapað mikla fjár­hags­lega byrði á næstu árum.

Þá hafa sér­fræðingar bent á að ef tæknin reynist ekki eins árangurs­rík eða sjálf­bær og vonast er til, gæti það sett í upp­nám framtíðaráætlanir Ís­lands um kol­efnis­hlut­leysi.

Áhyggjur snúa einnig að því hvernig verk­efnið verður fjár­magnað til lengri tíma – hvort sem það verði með opin­berum styrkjum eða auknum álögum á fyrir­tæki og neyt­endur.

Þrátt fyrir þessar áskoranir telja margir að kol­efnis­förgun sé óum­flýjan­legur hluti af leið Ís­lands að kol­efnis­hlut­leysi, en nauð­syn­legt sé að tryggja að fram­vinda slíkra verk­efna byggi á varfærni og ítar­legu mati á langtímaáhrifum.

Stjórn Orku­veitu Reykja­víkur samþykkti á síðasta fundi sínum í desember að hækka lána­línu Car­b­fix um fimm milljarða króna.

Ragn­hildur Alda María Vil­hjálms­dóttir, borgar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokksins, sat hjá og lagði fram eftir­farandi bókun:

„Fram kom í um­ræðum að hækkun lána­línunnar var ráð­gerð í 5 ára fjár­hagsáætlun Orku­veitunnar en áætlaður endur­greiðslutími lána­línunnar hafi þó færst aftur. Gert var ráð fyrir að lána­línan yrði endur­greidd árið 2027. Til­urð lána­línunnar var aðlögun áforma Car­b­fix að nýjum aðstæðum en áður en lengra er haldið telur undir­rituð að Orku­veitan og stjórn hennar þurfi að setja sér ramma utan um fram­lög sín til Car­b­fix verði þau í formi láns- eða hluta­fjár og sá rammi þarf að vera hluti af langtíma­stefnumótun Orku­veitunnar. Í upp­hafi skyldi endinn skoða,“ segir í bókun Ragn­hildar.