Thoran Distillery hefur gert samstarfssamning við Drykkur vínheildsölu um sölu og dreifingu á Marberg vörubreiddinni á Íslandsmarkaði frá og með byrjun apríl 2025.
Samhliða þessum breytingum mun Thoran Distillery flytja framleiðslu sína út á Granda í stærra húsnæði. Stefnt er að því að auka framleiðsluna og um leið bjóða upp á aðstöðu fyrir gesti, þar á meðal vinnustaði og ferðamannahópa, til að heimsækja eimingarhúsið. Þar mun standa til boða að kaupa vörur Thoran beint frá framleiðslustað.
Styðji við útrás erlendis
Í tilkynningu segjast báðir aðilar spenntir fyrir samstarfinu enda falli Marberg vörubreiddin vel að vöruúrvali Drykkjar og dreifingarneti þess hér á landi.
„Á sama tíma gefur það eigendum Marberg meiri sveigjanleika við að einbeita sér að stækkandi framleiðslu og styðja við áframhaldandi útrás erlendis sem hefur farið vel á stað.“
Drykkur ehf var stofnað 2013 og hefur vöruframboðið aukist nokkuð í gegnum árin. Vilji eigenda félagsins er að halda áfram að stækka vörubreiddina til að mæta þörf veitingarmanna og halda stöðu sinni að vera einn af lykilbirgjum veitingarmanna.
„Fellur Marberg vörubreiddin vel að því markmiði enda bæði hágæða gin vörubreidd og Bróðinn brennivínið sem mætir þörfum veitingamanna að hafa góða íslenska vöru í boði fyrir gesti sína og á samkeppnishæfu verði við alþjóðlega risa sem eru sterkir hér á markaðnum,“ segir í tilkynningunni.