Íslenska hátæknifyrirtækið DTE hefur lokið 1,4 milljarða króna hlutafjáraukningu til áframhaldandi uppbyggingar á tækni sem að sögn fyrirtækisins gerir framleiðslu áls hagkvæmari, öruggari og umhverfisvænni.

Meðal þátttakenda í fjármögnuninni eru Novelis, stærsti endurvinnsluaðili áls í heiminum, ásamt vísissjóðunum Metaplanet, Chrysalix Venture Capital og Brunnur Ventures ásamt sjóði í eigu Evrópska Nýsköpunarráðsins, EIC Fund.

“Við sjáum fram á að sú tækni sem DTE hefur þróað leyfi okkur að stytta framleiðslutíma í okkar ofnum og muni þar af leiðandi auka framleiðslugetu okkar án þess að auka þurfi orkunotkun samhliða. Við sjáum einnig fram á að með tímanum geti lausnir DTE orðið til þess að við getum aukið hlutfall endurunnins áls í þeim vörum sem við framleiðum.” segir Derek Prichett, Senior VP Corporate Development hjá Novelis.

Ásamt því að taka þátt í hlutafjáraukningunni skrifaði Novelis undir fjögurra ára rammasamning um innleiðingu lausna DTE í framleiðslu Novelis á heimsvísu, en fyrsta innleiðingin stendur nú yfir í verksmiðju Novelis í Bandaríkjunum.

“Við erum mjög stolt af þessari viðurkenningu á þeim árangri sem við höfum náð og þeim mikilvægu markmiðum sem við stefnum að á næstu misserum. Þessi fjármögnun mun styðja við áframhaldandi þróun og uppbyggingu sölu- og markaðsstarfs DTE á alþjóðlegum mörkuðum og er því stuðningur Novelis við okkar vegferð að því að bæta öryggi og framleiðni í gríðarstórum iðnaði,” segir Karl Ágúst Matthíasson, framkvæmdastjóri DTE.

DTE segir að lausnir fyrirtækisins séu nú þegar í notkun hjá fimm viðskiptavinum í þremur heimsálfum og mun fjármögnunin gera fyrirtækinu kleift að mæta aukinni eftirspurn sem hefur myndast undanfarin misseri.