Dular­full skila­boð voru rituð á byssukúlurnar sem myrtu Brian Thomp­son, for­stjóra United Health. Sam­kvæmt The Wall Street Journal gefur áletrunin vís­bendingar um ásetning morðingjans.

Ensku orðin „Deny,“ „Defend“ og „Depose“ voru rituð á byssukúlurnar með túss­penna en þýða má orðin laus­lega sem „neita, verjast, stefna“ á ís­lensku.

Sam­kvæmt WSJ þekkja þeir sem hafa þurft að taka slaginn við bandarísk sjúkra­tryggingarfélög en orðin eru afar svipuð ein­kennis­orðum sem samtök sjúklinga hafa notað til að lýsa sam­skiptum sínum við tryggingarfélögin; „Deny, Delay og Defend.“

Sam­bæri­legir frasar eru einnig al­gengir í dóms­málum gegn sjúkra­tryggingarfélögum er sjúklingar eða aðstand­endur stefna þeim vegna höfnunar um greiðslu fyrir læknisþjónustu.

„Þetta er mjög al­gengur frasi,“ segir Paul Napoli, lög­maður sem hefur sótt tugi mála gegn tryggingarfélögum fyrir hönd sjúklinga. „Þetta er starfsað­ferð þeirra meðan þeir finna bestu leiðina til að hafna því að greiða fyrir læknisþjónustu,“ segir Napoli í sam­tali við WSJ.

Á miðviku­daginn sagði lögreglan að morðið hefði verið þaul­skipu­lagt en ástæða eða ásetningur þess væri þeim ekki ljós.

Áletrunin ætti að gefa vís­bendingar um ásetning morðingjans.

Í gær­morgun voru birtar ljós­myndir sem sýna and­lit manns sem lögreglan vill ná tali af í tengslum við skotárásina. Sá hinn sami virðist vera skæl­brosandi að halla sér yfir af­greiðslu­borð.

Lögreglan hefur boðið fram 10 þúsund dali, um 1,4 milljónir króna, fyrir upp­lýsingar um ódæðis­manninn.