Dularfull skilaboð voru rituð á byssukúlurnar sem myrtu Brian Thompson, forstjóra United Health. Samkvæmt The Wall Street Journal gefur áletrunin vísbendingar um ásetning morðingjans.
Ensku orðin „Deny,“ „Defend“ og „Depose“ voru rituð á byssukúlurnar með tússpenna en þýða má orðin lauslega sem „neita, verjast, stefna“ á íslensku.
Samkvæmt WSJ þekkja þeir sem hafa þurft að taka slaginn við bandarísk sjúkratryggingarfélög en orðin eru afar svipuð einkennisorðum sem samtök sjúklinga hafa notað til að lýsa samskiptum sínum við tryggingarfélögin; „Deny, Delay og Defend.“
Sambærilegir frasar eru einnig algengir í dómsmálum gegn sjúkratryggingarfélögum er sjúklingar eða aðstandendur stefna þeim vegna höfnunar um greiðslu fyrir læknisþjónustu.
„Þetta er mjög algengur frasi,“ segir Paul Napoli, lögmaður sem hefur sótt tugi mála gegn tryggingarfélögum fyrir hönd sjúklinga. „Þetta er starfsaðferð þeirra meðan þeir finna bestu leiðina til að hafna því að greiða fyrir læknisþjónustu,“ segir Napoli í samtali við WSJ.
Á miðvikudaginn sagði lögreglan að morðið hefði verið þaulskipulagt en ástæða eða ásetningur þess væri þeim ekki ljós.
Áletrunin ætti að gefa vísbendingar um ásetning morðingjans.
Í gærmorgun voru birtar ljósmyndir sem sýna andlit manns sem lögreglan vill ná tali af í tengslum við skotárásina. Sá hinn sami virðist vera skælbrosandi að halla sér yfir afgreiðsluborð.
Lögreglan hefur boðið fram 10 þúsund dali, um 1,4 milljónir króna, fyrir upplýsingar um ódæðismanninn.