Ib Nymark Hegelund, sem danski viðskiptamiðillinn Børsen segir vera leyndardómsfyllsta milljarðamæring Danmerkur, hagnaðist gríðarlega í fyrra.
Fjárfestingafélag hins 81 árs gamla Dana, Imbtech A/S, skilaði 5,9 milljarða danskra króna hagnaði í fyrra sem samsvarar um 118 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.
Samkvæmt Børsen hefur Hegelund hagnast um 10 milljarða danskra króna á síðustu þremur árum sem samsvarar um 200 milljörðum íslenskra króna.
Engin opinber ljósmynd er til af Hegelund sem hefur heldur aldrei veitt nein viðtöl við fjölmiðla en hann hefur búið í kastala við Lugano-vatn í Sviss frá árinu 2011.
Eigið fé 320 milljarðar og „engin spákaupmennska“
Ef efnahagsreikningur félagsins er skoðaður er eigið fé samstæðunnar um 16 milljarðar danskra króna sem samsvarar um 320 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.
Það sem er vitað um Hegelund er að hann er verkfræðingur og auðgaðist hann upphaflega á ensímverksmiðjunni Denmarks Enzymes í Lystrup norður af Árósum.
Í ársreikningum félagsins frá árinu 2019 hefur alltaf verið tekið fram að afkoma félagsins sé ekki tilkomin „af spákaupmennsku eða neinu öðru slíku.“
Í ársreikningi félagsins árið 2020, er Hegelund hagnaðist um 1 milljarð danskra króna, kom fram að jákvæð afkoma félagsins væri bundin við afkomu stærstu fjárfestinga félagsins sem allar voru framkvæmdar fyrir 30 árum síðan.
Afkoman eltir Novo Nordisk
Danski fjölmiðillinn Finans gerði ítarlega rannsókn á Hegelund í fyrra og fór fjölmiðillinn yfir afkomu fjárfestingafélagsins frá árinu 1980.
Í ljós kom að afkoma Hegelund rímar ágætlega við afkomu og gengi danska lyfjarisans Novo Nordisk og var dregin sú ályktun að hann eigi líklegast töluvert af bréfum í lyfjafyrirtækinu.
Hlutabréf Novo Nordisk voru tekin til viðskipta í Kauphöllinni árið 1974 en gengið hefur hækkað um 113.467% frá árinu 1980.
„Ég er ekki að fara segja neitt “
Í rannsókn Finans árið 2023 reyndi blaðamaður að fá upplýsingar frá nákomnum aðilum Hegelund en hafði ekki árangur sem erfiði.
„Þú lendir bara á vegg alveg sama í hvern þú hringir og ég er ekki að fara segja neitt heldur,“ sagði ónefndur fjölskyldumeðlimur Hegelund við blaðamann Finans.
„Hann vill ekki vera í fjölmiðlum og það eina sem þú finnur um hann er í opinberum skjölum og reikningum. Þú færð ekki neinn til að segja þér neitt um hann. Það eina sem ég get sagt þér er að hann varð nýlega áttræður,“ sagði Ole Ravnsbo, lögmaður Hegelund til fjörutíu ára, í fyrra.
Ejlif Thomasen, sem hefur í áratugi gefið út bækur og lista um efnaðasta fólk Danmerkur, segir kenninguna um að Hegelund eigi hluti í Novo „áhugaverða“ þó að hann telji meira liggja að baki.
Stærstu rökin fyrir því að Hegelund sé stór hluthafi í Novo Nordisk má rekja til ársins 2016 þegar Imbtech tapaði 852 milljónum danskra króna en árið 2016 var afar slæmt fyrir Novo Nordisk.
Í október 2016 tilkynnti Novo Nordisk að afkoman yrði helmingi verri en áætlað var og féll gengið í Kauphöllinni.
Á tímabilinu 1. maí 2023 til 30. apríl 2024 hækkaði gengi Novo um 60% sem er í samræmi við hækkun á verðbréfasafni Hegelund á sama tímabili er virðið hækkaði úr 11,4 milljörðum danskra króna í 18,2 milljarða danskra króna.
Hér er þó bara um fylgnisamband að ræða og hefur enginn getað staðfest að Hegelund eigi hlut í Novo Nordisk.