Ib Ny­mark Hegelund, sem danski við­skipta­miðillinn Børsen segir vera leyndar­dóms­fyllsta milljarða­mæring Dan­merkur, hagnaðist gríðarlega í fyrra.

Fjár­festinga­fé­lag hins 81 árs gamla Dana, Imbtech A/S, skilaði 5,9 milljarða danskra króna hagnaði í fyrra sem sam­svarar um 118 milljörðum ís­lenskra króna á gengi dagsins.

Sam­kvæmt Børsen hefur Hegelund hagnast um 10 milljarða danskra króna á síðustu þremur árum sem sam­svarar um 200 milljörðum ís­lenskra króna.

Engin opin­ber ljósmynd er til af Hegelund sem hefur heldur aldrei veitt nein við­töl við fjöl­miðla en hann hefur búið í kastala við Luga­no-vatn í Sviss frá árinu 2011.

Eigið fé 320 milljarðar og „engin spá­kaup­mennska“

Ef efna­hags­reikningur fé­lagsins er skoðaður er eigið fé sam­stæðunnar um 16 milljarðar danskra króna sem sam­svarar um 320 milljörðum ís­lenskra króna á gengi dagsins.

Það sem er vitað um Hegelund er að hann er verk­fræðingur og auðgaðist hann upp­haf­lega á ensím­verk­smiðjunni Den­marks Enzy­mes í Lystrup norður af Ár­ósum.

Í árs­reikningum fé­lagsins frá árinu 2019 hefur alltaf verið tekið fram að af­koma fé­lagsins sé ekki til­komin „af spá­kaup­mennsku eða neinu öðru slíku.“

Í árs­reikningi fé­lagsins árið 2020, er Hegelund hagnaðist um 1 milljarð danskra króna, kom fram að já­kvæð af­koma fé­lagsins væri bundin við af­komu stærstu fjár­festinga fé­lagsins sem allar voru fram­kvæmdar fyrir 30 árum síðan.

Af­koman eltir Novo Nor­disk

Danski fjöl­miðillinn Finans gerði ítar­lega rann­sókn á Hegelund í fyrra og fór fjöl­miðillinn yfir af­komu fjár­festinga­fé­lagsins frá árinu 1980.

Í ljós kom að af­koma Hegelund rímar á­gæt­lega við af­komu og gengi danska lyfjarisans Novo Nor­disk og var dregin sú á­lyktun að hann eigi lík­legast tölu­vert af bréfum í lyfja­fyrir­tækinu.

Hluta­bréf Novo Nor­disk voru tekin til við­skipta í Kaup­höllinni árið 1974 en gengið hefur hækkað um 113.467% frá árinu 1980.

Hegelund hefur búið í Castello Cattaneo-kastalanum við Lugano-vatn í Sviss frá 2011, sem sjá má hér á Google maps.

„Ég er ekki að fara segja neitt “

Í rannsókn Finans árið 2023 reyndi blaðamaður að fá upplýsingar frá nákomnum aðilum Hegelund en hafði ekki árangur sem erfiði.

„Þú lendir bara á vegg alveg sama í hvern þú hringir og ég er ekki að fara segja neitt heldur,“ sagði ó­nefndur fjöl­skyldu­með­limur Hegelund við blaða­mann Finans.

„Hann vill ekki vera í fjöl­miðlum og það eina sem þú finnur um hann er í opin­berum skjölum og reikningum. Þú færð ekki neinn til að segja þér neitt um hann. Það eina sem ég get sagt þér er að hann varð ný­lega átt­ræður,“ sagði Ole Ravnsbo, lög­maður Hegelund til fjöru­tíu ára, í fyrra.

Ejlif Thoma­sen, sem hefur í ára­tugi gefið út bækur og lista um efnaðasta fólk Dan­merkur, segir kenninguna um að Hegelund eigi hluti í Novo „á­huga­verða“ þó að hann telji meira liggja að baki.

Stærstu rökin fyrir því að Hegelund sé stór hlut­hafi í Novo Nor­disk má rekja til ársins 2016 þegar Imbtech tapaði 852 milljónum danskra króna en árið 2016 var afar slæmt fyrir Novo Nor­disk.

Í októ­ber 2016 til­kynnti Novo Nor­disk að af­koman yrði helmingi verri en á­ætlað var og féll gengið í Kaup­höllinni.

Á tíma­bilinu 1. maí 2023 til 30. apríl 2024 hækkaði gengi Novo um 60% sem er í sam­ræmi við hækkun á verð­bréfa­safni Hegelund á sama tíma­bili er virðið hækkaði úr 11,4 milljörðum danskra króna í 18,2 milljarða danskra króna.

Hér er þó bara um fylgnisamband að ræða og hefur enginn getað staðfest að Hegelund eigi hlut í Novo Nordisk.