Danski frum­kvöðullinn Christian Banz­haf hefur selt um 60% hlut í dróna­fyrir­tæki sínu Boston Nor­dic Group.

Sam­kvæmt ný­birtum árs­reikningi eignar­halds­félags Banz­haf seldi hann hlutinn í fyrra fyrir rúm­lega 520 milljónir danskra króna sem sam­varar um 10 milljörðum króna.

Sam­kvæmt Børsen er Banz­haf þekktur fyrir þag­mælsku sína en hann hefur aldrei rætt við danska fjölmiðla.

Á síðustu ára­tugum hefur hann einungis tjáð sig einu sinni opin­ber­lega er hann gaf tíma­ritinu Compu­terworld við­tal. Þá hafa danskir fjölmiðlar ekki heldur náð ljós­mynd af milljarðamæringnum.

Tvöföldun tekna á þremur árum

Banz­haf stofnaði Boston Nor­dic Group árið 1994 en frá og með árinu 2014 hefur félagið ein­blínt á að fram­leiða svo­kallaða flutnings­dróna fyrir ein­stak­linga og fyrir­tæki.

Fyrir­tækið er í dag stærsti heild­sali á drónum á Norður­löndunum með úti­bú í Finn­landi, Noregi og Svíþjóð.

Af­koma félagsins hefur stóraukist á síðustu árum en tekjur félagsins fóru úr 500 milljónum danskra króna á fjár­hagsárinu 2020/2021 í 1,5 milljarð danskra króna á fjár­hagsárinu 2023/2024.

Hagnaður félagsins nam 86 milljónum danskra króna í fyrra sem samsvarar um 1,7 milljörðum á gengi dagsins.

Sam­kvæmt Børsen keyptu þekktir danskir fjár­festar hlut Banz­hof í fyrra en þar á meðal má nefna danska milljarðamæringinn Jesper Kal­ko sem stofnaði hug­búnaðar­fyrir­tækið NTI, sem er meðal annars með starfstöð á Ís­landi.