Danski frumkvöðullinn Christian Banzhaf hefur selt um 60% hlut í drónafyrirtæki sínu Boston Nordic Group.
Samkvæmt nýbirtum ársreikningi eignarhaldsfélags Banzhaf seldi hann hlutinn í fyrra fyrir rúmlega 520 milljónir danskra króna sem samvarar um 10 milljörðum króna.
Samkvæmt Børsen er Banzhaf þekktur fyrir þagmælsku sína en hann hefur aldrei rætt við danska fjölmiðla.
Á síðustu áratugum hefur hann einungis tjáð sig einu sinni opinberlega er hann gaf tímaritinu Computerworld viðtal. Þá hafa danskir fjölmiðlar ekki heldur náð ljósmynd af milljarðamæringnum.
Tvöföldun tekna á þremur árum
Banzhaf stofnaði Boston Nordic Group árið 1994 en frá og með árinu 2014 hefur félagið einblínt á að framleiða svokallaða flutningsdróna fyrir einstaklinga og fyrirtæki.
Fyrirtækið er í dag stærsti heildsali á drónum á Norðurlöndunum með útibú í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.
Afkoma félagsins hefur stóraukist á síðustu árum en tekjur félagsins fóru úr 500 milljónum danskra króna á fjárhagsárinu 2020/2021 í 1,5 milljarð danskra króna á fjárhagsárinu 2023/2024.
Hagnaður félagsins nam 86 milljónum danskra króna í fyrra sem samsvarar um 1,7 milljörðum á gengi dagsins.
Samkvæmt Børsen keyptu þekktir danskir fjárfestar hlut Banzhof í fyrra en þar á meðal má nefna danska milljarðamæringinn Jesper Kalko sem stofnaði hugbúnaðarfyrirtækið NTI, sem er meðal annars með starfstöð á Íslandi.