Fjár­mögnunar­kostnaður breska ríkisins hefur hækkað tölu­vert á síðustu vikum er ávöxtunar­krafa á skulda­bréfum til þrjátíu ára hefur hækkað veru­lega.

Engu að síður ákvað breska ríkið að ráðast í milljarða punda út­boð á skulda­bréfa­flokki með loka­gjöldum árið 2054.

Krafan var 2,126% sem er hæsta krafan á langtíma­skulda­bréfi breska ríkisins frá því á verðbólgutímanum í júlí 2004. Um er að ræða kröfuna (vextina) sem fjár­festar fá endur­greidda ár­lega ofan á verðbólgu. Ávöxtunar­krafan á markaði er því um 5,432%.

Eftir­spurn í út­boðinu var einnig dræm að sögn The Guar­dian en rúm­lega þreföld eftir­spurn var eftir bréfum ríkisins sem er mun minna en í venju­legu ár­ferði.

Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá á dögunum að Verka­manna­flokkurinn sem nú er við völd í landinu neyðist til þess að fara í „mjög harðan“ niður­skurð þar sem fjár­mögnunar­kostnaður ríkisins er orðinn gríðar­legur.

Ávöxtunar­krafa ríkis­skulda­bréfa til 30 ára fór í 5,21% fyrir viku síðan og hafði fjár­mögnunar­kostnaður ríkisins ekki verið hærri síðan 1998. Sem fyrr segir er krafan í kringum 5,432% um þessar mundir.

Breskar ríkis­stofnanir eru byrjaðar að undir­búa sig undir harðar fjár­laga­skerðingar þar sem ríkis­sjóður Bret­lands verður að draga veru­lega úr út­gjöldum vegna hækkandi lántöku­kostnaðar.

Mikill órói hefur verið á skulda­bréfa­markaði eftir að Verka­manna­flokkurinn greindi frá áformum sínum um metút­gáfu skulda á þessu fjár­lagaári. Ávöxtunar­krafa breskra ríkis­bréfa til 30 ára hefur hækkað gríðar­lega á stuttum tíma og þar með lántöku­kostnaður ríkisins.

Breska ríkið greiðir nú þegar 100 milljarða punda í vaxta­greiðslur á hverju ári. Ríkið eyðir þannig um tvöfalt meiru bara í vexti en varnar­mál.