Fjár­festar á Wall Street, sem fögnuðu endur­komu Donalds Trump í Hvíta húsið með bjartsýni og háum væntingum, standa nú frammi fyrir miklum von­brigðum.

Í febrúar síðastliðnum safnaðist úr­val fjár­málaelítunnar saman á viðburði í Miami Beach sem studdur var af Sádi-Arabíu.

Þar á meðal voru Robert Smith frá Vista Equity, Josh Har­ris, stofnandi Apollo, og Nir Bar Dea, for­stjóri Brid­gewa­ter. Þeir biðu í allt að þrjár klukku­stundir eftir for­setanum sem mætti seint á svæðið.

Trump tók á móti fagnaðar­látum og lýsti Bandaríkjunum sem „besta landinu í heimi“ til að skapa auð, efla nýsköpun og um­breyta at­vinnu­greinum.

Fjár­festar létu sig hrífast og bundu vonir við lækkandi skatta, aukna af­reglu­væðingu og vin­sam­legt við­skipta­um­hverfi. En innan við tveimur mánuðum síðar hafði hluta­bréfa­markaðurinn tapað meira en 5.000 milljörðum dollara í virði þegar for­setinn hóf víðtækt tolla­stríð sem ýtti undir ótta um verðbólgu og efna­hags­sam­drátt.

„Við tókum hann ekki al­var­lega. Við héldum að ein­hver í ríkis­stjórninni myndi leiðrétta hann,“ segir stjórnandi hjá einni stærstu fjár­mála­stofnun Bandaríkjanna í sam­tali við Financial Times.

En Trump virtist ákveðinn í að koll­varpa stefnu fyrri ára­tuga og snúa baki við hnatt­væðingunni, jafn­vel þótt það kæmi niður á fjár­mála­kerfinu.

Val hans á JD Vance sem vara­for­seta og orð Scott Bes­sents fjár­málaráðherra, sem sjálfur er fyrr­verandi vogunar­sjóðs­stjóri, stað­festi þessi áform.

„MAGA stendur ekki fyrir ‘Make M&A Great Again’,“ sagði Bes­sent í mars.

Óvissa grefur undan trausti

Tollar Trump höfðu sam­stundis áhrif. Fyrir­tæki á borð við Delta og Wal­mart drógu til baka hagnaðar­spár, yfir­töku­markaður hrundi og lántöku­skil­yrði versnuðu. Ríkis­skulda­bréf fóru að haga sér eins og bréf ný­markaðs­ríkja og dollarinn veiktist. Lána­markaðir lokuðust jafn­vel fyrir traustum stór­fyrir­tækjum, sem er óvenju­legt.

Aðeins Jamie Dimon, for­stjóri JP­Morgan, virtist ná eyrum for­setans og þá ekki í einka­samræðum, heldur í sjón­varps­viðtali á Fox Business.

Í kjölfarið ákvað for­setinn að draga að hluta til í land með tollana. Það var ekki af til­lits­semi við Wall Street, heldur vegna ótta við að fjár­mála­kerfið myndi hrynja.

Við­skiptalífið dregur sig í hlé

Viðbrögðin úr fjár­mála­heiminum hafa verið þöglari en áður. Helstu lög­fræði­stofur landsins, sem áður höfðu haldið sig til hlés frá for­setanum, eru nú undir miklum þrýstingi að vinna fyrir ríkis­stjórnina án endur­gjalds.

Fram­kvæmda­stjórar forðast um­mæli af ótta við hefndarað­gerðir eða laga­legar af­leiðingar.

„Það eru varla til lög­fræði­stofur sem geta varið ykkur lengur,“ sagði Ant­hony Scaramucci, fyrr­verandi sam­skipta­stjóri Hvíta hússins. „Fólk er hrein­lega hrætt.“

Þrátt fyrir að for­setinn hafi mildað tolla­stefnuna að hluta hefur traust markaðarins ekki skilað sér á ný.

Vextir eru áfram háir, dollarinn veikur og fjár­festar ótta­slegnir. Fjölmörg ein­kenni benda til þess að hag­kerfið standi frammi fyrir ófyrir­séðum áföllum og að hefðbundnar fjár­festinga­for­sendur eigi ekki lengur við.

„Fjár­festar átta sig nú á því að ekkert af því sem þeir áður treystu á er lengur öruggt. Allt er orðið óút­reiknan­legt,“ segir Joseph Fou­dy, pró­fessor við NYU.