Fjárfestar á Wall Street, sem fögnuðu endurkomu Donalds Trump í Hvíta húsið með bjartsýni og háum væntingum, standa nú frammi fyrir miklum vonbrigðum.
Í febrúar síðastliðnum safnaðist úrval fjármálaelítunnar saman á viðburði í Miami Beach sem studdur var af Sádi-Arabíu.
Þar á meðal voru Robert Smith frá Vista Equity, Josh Harris, stofnandi Apollo, og Nir Bar Dea, forstjóri Bridgewater. Þeir biðu í allt að þrjár klukkustundir eftir forsetanum sem mætti seint á svæðið.
Trump tók á móti fagnaðarlátum og lýsti Bandaríkjunum sem „besta landinu í heimi“ til að skapa auð, efla nýsköpun og umbreyta atvinnugreinum.
Fjárfestar létu sig hrífast og bundu vonir við lækkandi skatta, aukna afregluvæðingu og vinsamlegt viðskiptaumhverfi. En innan við tveimur mánuðum síðar hafði hlutabréfamarkaðurinn tapað meira en 5.000 milljörðum dollara í virði þegar forsetinn hóf víðtækt tollastríð sem ýtti undir ótta um verðbólgu og efnahagssamdrátt.
„Við tókum hann ekki alvarlega. Við héldum að einhver í ríkisstjórninni myndi leiðrétta hann,“ segir stjórnandi hjá einni stærstu fjármálastofnun Bandaríkjanna í samtali við Financial Times.
En Trump virtist ákveðinn í að kollvarpa stefnu fyrri áratuga og snúa baki við hnattvæðingunni, jafnvel þótt það kæmi niður á fjármálakerfinu.
Val hans á JD Vance sem varaforseta og orð Scott Bessents fjármálaráðherra, sem sjálfur er fyrrverandi vogunarsjóðsstjóri, staðfesti þessi áform.
„MAGA stendur ekki fyrir ‘Make M&A Great Again’,“ sagði Bessent í mars.
Óvissa grefur undan trausti
Tollar Trump höfðu samstundis áhrif. Fyrirtæki á borð við Delta og Walmart drógu til baka hagnaðarspár, yfirtökumarkaður hrundi og lántökuskilyrði versnuðu. Ríkisskuldabréf fóru að haga sér eins og bréf nýmarkaðsríkja og dollarinn veiktist. Lánamarkaðir lokuðust jafnvel fyrir traustum stórfyrirtækjum, sem er óvenjulegt.
Aðeins Jamie Dimon, forstjóri JPMorgan, virtist ná eyrum forsetans og þá ekki í einkasamræðum, heldur í sjónvarpsviðtali á Fox Business.
Í kjölfarið ákvað forsetinn að draga að hluta til í land með tollana. Það var ekki af tillitssemi við Wall Street, heldur vegna ótta við að fjármálakerfið myndi hrynja.
Viðskiptalífið dregur sig í hlé
Viðbrögðin úr fjármálaheiminum hafa verið þöglari en áður. Helstu lögfræðistofur landsins, sem áður höfðu haldið sig til hlés frá forsetanum, eru nú undir miklum þrýstingi að vinna fyrir ríkisstjórnina án endurgjalds.
Framkvæmdastjórar forðast ummæli af ótta við hefndaraðgerðir eða lagalegar afleiðingar.
„Það eru varla til lögfræðistofur sem geta varið ykkur lengur,“ sagði Anthony Scaramucci, fyrrverandi samskiptastjóri Hvíta hússins. „Fólk er hreinlega hrætt.“
Þrátt fyrir að forsetinn hafi mildað tollastefnuna að hluta hefur traust markaðarins ekki skilað sér á ný.
Vextir eru áfram háir, dollarinn veikur og fjárfestar óttaslegnir. Fjölmörg einkenni benda til þess að hagkerfið standi frammi fyrir ófyrirséðum áföllum og að hefðbundnar fjárfestingaforsendur eigi ekki lengur við.
„Fjárfestar átta sig nú á því að ekkert af því sem þeir áður treystu á er lengur öruggt. Allt er orðið óútreiknanlegt,“ segir Joseph Foudy, prófessor við NYU.