Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, kveðst ekki hafa áhyggjur af samkeppni við Play. Á Mid Atlantic ferðaþjónustusýningunni í lok janúar sagði hann að Icelandair gæti hæglega lækkað einingarkostnað en að það myndi ekki skila sér í bættri rekstrarniðurstöðu fyrir félagið.
„Við gætum ákveðið að lækka einingakostnaðinn okkar um 20%-25% núna með því að fjölga sætum um borð og draga úr þjónustuframboði. Það passar hins vegar ekki við viðskiptalíkanið okkar. Við erum að reka flugfélag á Íslandi þar sem dýrt er að reka fyrirtæki,“ hefur blaðamaður Simple Flying eftir Boga.
Hann lýsti því jafnframt að innviðir og sölunet Icelandair vinni upp fyrir hærri kostnað á krefjandi tímum líkt og í Covid-faraldrinum og við hækkandi eldsneytisverð.
„Ég segi alltaf að það kostar peninga að græða peninga. Við höfum fjárfest í mjög öflugum innviðum á söluhliðinni okkar, m.a. í söluskrifstofum á öllum okkar mörkuðum, samstarfi við önnur flugfélög og í markaðssetningu.“
Í viðræðum við Boeing og Airbus
Bogi ræddi einnig um arftaka 757 Boeing vélanna, sem Icelandair hyggst hætta að styðja sig við árið 2026. Hann sagði að Icelandair ætti í viðræðum við bæði Boeing og Airbus. „Við stefnum að því að taka ákvörðun á komandi mánuðum.“
Annar valmöguleikinn væri að Icelandair yrði áfram „Boeing fyrirtæki“ með MAX-vélarnar sem kjarna í flota félagsins og að styðja sig við 767 fyrir lengri ferðir. Síðar yrði 767 vélunum skipt út fyrir Boeing 787. Hinn valkosturinn væri að A321LR eða XLR myndu leysa Boeing 757 vélarnar af hólmi.