Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, undirbýr sig nú undir að hækka stýrivexti á morgun vegna vaxandi verðbólgu. Seðlabankinn og bankastjórinn Andrew Bailey hafa fengið harða gagnrýni á sig fyrir að verja tæplega 200 þúsund pundum eða um 32 milljónum króna í átak til að aðstoða sig við að „skilgreina kjarna stofnunarinnar“ á sama tíma og mesta verðbólga í 40 ár rýrir kaupmátt almennings.
Í lok síðustu viku var greint frá því að Englandsbanki hefði ráðið ráðgjafarfyrirtækið The Storytellers til að vinna markaðsefni sem á að sýna fram á það virði sem seðlabankinn sem vinnuveitandi bjóði upp á. Í umfjöllun The Times segir að Englandsbanki, líkt og önnur fyrirtæki í fjármálahverfi London, eigi nú í erfiðleikum með að halda og laða að starfsfólk.
Bankinn vildi að nýja markmiðslýsingin (e. mission statement) sín ætti að sýna „af hverju fólk sé stolt og áhugasamt“ að vinna hjá sér og hyggst nota hana til að „hanna vörumerki sem við munum koma reglulega á framfæri til að laða að og halda í starfsfólk“.
Samningurinn við ráðgjafarfyrirtækið tók gildi í lok síðasta mánaðar og nær út septembermánuð. The Storytellers fær 203.160 pund fyrir vinnu sína. Ekki er langt síðan Englandsbanki eyddi 51 þúsund pundum eða um átta milljónum króna til að aðlaga kennimerki sitt svo það verði minna fælandi.
Breskir stjórnmálamenn hafa látið Englandsbanka heyra það. Einn nefndarmaður fjárlaganefndar breska þingsins sagði að „ef bankinn skilur ekki eigin viðfangsefni og getur ekki komið því skýrt í orð, þá er það sorgleg staða“. Haft er eftir tveimur stjórnmálamönnum að þeir telji þörf á fá nýjan mann inn fyrir Bailey.
Talskona Englandsbanki sagði að bankinn horfi, líkt og margar aðrar stofnanir, fram á áskorun að fá inn hæft starfsfólk. „Til að þjóna almenningi Bretlands, þá leggjum við hart að okkur að laða að fólk með kunnáttu sem við höfum þörf á, bæði núna og í framtíðinni. Það er nauðsynlegt að við gefum góða og heiðarlega mynd af því hvað bankinn stendur fyrir og hvað við getum boðið framtíðarstarfsfólki.“