Innan skamms verður stórt framfaraskref stigið fyrir íslenskt atvinnulíf er gervigreindarlausnin Copilot frá Microsoft mun styðja að fullu við íslensku, enda fléttast Copilot lausnin inn í allar helstu lausnir Microsoft 365. Í byrjun vikunnar stóð KPMG á Íslandi fyrir ráðstefnu þar sem farið var yfir möguleika í notkun gervigreindar fyrir íslensk fyrirtæki og stofnanir.
Gísli Ragnar Guðmundsson, ráðgjafi hjá KPMG, var einn af frummælendum ráðstefnunnar. Hann segir ljóst að það sé aðeins tímaspursmál hvenær einkageirinn fari á fullt í innleiðingu á gervigreindarlausnum.
„Á ráðstefnu sem KPMG hélt nýverið í Danmörku var lögð áhersla á nýja sýn: Það er ekki lengur bara áhættan við að innleiða gervigreind sem þarf að meta – heldur líka áhættuna við að gera það ekki.“
Hann segir mest áhrif í náinni framtíð verða á störf sem fela í sér vinnslu texta, skipulag og ákvarðanatöku byggða á flóknum gögnum. Þar falli m.a. undir lögfræðingar sem og heilbrigðiskerfið. „Lögfræðistofan okkar, KPMG Law, hefur t.a.m. verið að vinna markvisst að því að innleiða gervigreindarlausnir til að bæta skilvirkni og afköst. Mikilvægur tími fer í að leita gagna, finna réttu lögin og viðeigandi fordæmi – og gervigreind getur tekið við stórum hluta þess verks,“ segir Gísli.
Sama eigi við í heilbrigðiskerfinu, þar sem tækifærin til að minnka skriffinnsku og létta á álagi séu gríðarleg. „Tækifærin á þessu sviði eru að mínu mati óþrjótandi, en stjórnendur í íslensku atvinnulífi og hjá hinu opinbera verða að gefa þessu gaum,“ segir Gísli. Miklu skipti að styðja starfsmenn og stjórnendur í því að hagnýta gervigreindarlausnir til að auka afköst og skilvirkni og það auki einnig starfsánægju. „Gervigreindin er þannig orðin „strategískt“ mikilvægur þáttur í rekstri fyrirtækja. Að sitja eftir í því kapphlaupi getur reynst dýrt spaug fyrir stjórnendur fyrirtækja og hluthafa þeirra.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.