Breska flugfélagið easyJet bætti í dag við Basel Mulhouse í Sviss og Lyon í Frakklandi sem áfangastöðum frá Keflavík á áætlun félagsins fyrir sumarið 2025. Flug til Basel hefst 1. apríl en flug til Lyon hefst 24. júní og verður flogið tvisvar í viku á báða áfangastaði.

EasyJet flaug áður frá Basel til Íslands á árunum 2014 til 2019 en þetta er í fyrsta skipti sem easyJet flýgur milli Keflavíkur og Lyon.

„Þessi ákvörðun easyJet er mikið fagnaðarefni. Þetta er til marks um hve mikla trú félagið hefur á áfangastaðnum Íslandi. Við tökum fagnandi á móti farþegum easyJet frá Basel og Lyon og erum þess fullviss að íslenskt ferðafólk nýti tækifærið og taki flugið á þessa tvo áfangastaði félagsins,“ segir Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og leiðaþróunar á Keflavíkurflugvelli.