Gengið hefur verið frá samningi um kaup norska fjármálafyrirtækisins ECIT AS á helmingshlut í Virtus fjármálum ehf., að því er kemur fram í fréttatilkynningu. ECIT kaupir 50,1% hlut í Virtus með umsömdum kauprétti á öðrum hlutum í félaginu.
Kaupin eru að meirihluta til fjármögnuð með reiðufé en einnig með hlutabréfum í ECIT AS, sem er skráð félag í norsku kauphöllinni. Samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins á Gígja Gunnarsdóttir 80% hlut í Virtus.
Bókhalds- og launasýsluþjónusta Virtus verður héðan í frá rekin undir sameiginlegum hatti félaganna. Hjá ECIT starfa yfir 2.300 starfsmenn í tíu löndum. Með þessum samningi kemur ECIT til Íslands í fyrsta sinn.
„Við erum afar ánægð með þessa innkomu og bjóðum bæði viðskiptavini og starfsfólk velkomið í áframhaldandi samstarf undir merkjum ECIT Virtus“ segir Peter Lauring, forstjóri ECIT.
Virtus rekur bókhalds- og launasýslu og afgreiðir nú launaútreikninga og tengda þjónustu fyrir tæplega fjögur þúsund launamenn í hverjum mánuði. Hjá félaginu starfa um 20 manns í ríflega 15 stöðugildum.
Tekjur Virtus námu 220 milljónum króna árið 2022 og um 204 milljónum króna árið 2021. Hagnaður félagsins nam 3,1 milljónum króna árið 2021. Eignir í árslok 2021 voru bókfærðar á 107 milljónir og eigið fé var um 10,5 milljónir.