ECIT Virtus ehf. gekk í mánuðinum frá kaupum á rekstri Húnabókhalds ehf. Starfsemi félaganna verður sameinuð frá og með 1. janúar 2024.

Með kaupunum verður starfslið ECIT Virtus skipað um 23 starfsmönnum en fyrirtækið er nú með yfir 500 viðskiptavini í fjármálatengdum verkefnum, einkum bókhaldi, launasýslu og margþættri fjármálaráðgjöf á borð við uppgjörs- og skattaráðgjöf. Áætluð velta ECIT Virtus á næsta ári er hálfur milljarður króna.

Í tilkynningu segir að engar breytingar séu fyrirhugaðar á starfsmannahaldi Húnabókhalds né þjónustu félagsins við tæplega 160 viðskiptavini sína þótt starfsemin, sem rekin hefur verið í Mosfellsbæ, færist öll undir merki ECIT Virtus í Reykjavík.

Rannveig Lena Gísladóttir, sem átt hefur og rekið Húnabókhald síðustu árin, mun þá ásamt samstarfsfólki sínu taka til starfa undir merkjum ECIT Virtus sem framkvæmdastjóri bókhaldssviðs. Einnig mun hún sem fyrr hafa yfirumsjón með þjónustu við alla viðskiptavini Húnabókhalds sem gert er ráð fyrir að fái hefðbundna þjónustu sína óbreytta til viðbótar við aðgang að þeirri faglegu þekkingu og reynslu sem ECIT Virtus hefur byggt upp í sínum röðum á undanförnum árum bæði hérlendis og erlendis.

ECIT Virtus ehf. er dótturfélag ECIT AS en það félag er með um 2.500 starfsmenn á yfir hundrað vinnustöðum í tíu löndum. Félagið er skráð í kauphöllinni í Osló. Yfirlýst markmið ECIT AS og ECIT Virtus ehf., sem til varð við kaup hins fyrrnefnda á 51% hlut í Virtus fyrr á þessu ári, er áframhaldandi innri og ytri vöxtur þar til hentug stærð næst sem hámarkar stærðarhagkvæmni á íslenska markaðnum ásamt því að vera traustur grundvöllur gæða og fjölbreytileika í fjármálatengdri þjónustu félagsins.