ECIT Virtus ehf. hefur tekið yfir bókhalds- og launaþjónustu PwC í Reykjavík. Héðan í frá verður starfsemin rekin undir merkjum ECIT Virtus. Samkomulag um yfirfærsluna var gert í byrjun janúar.

Að því er segir í tilkynningu um málið starfa nú 30 manns með sérfræðiþekkingu á sviði bókhalds, launasýslu og skattaráðgjafar innan félagsins.

„ECIT Virtus hefur það að yfirlýstu markmiði að efla starfsemina bæði með innri og ytri vexti þar til stærðarhagkvæmni hefur verið hámörkuð hér á landi ásamt því að treysta grundvöll gæða og fjölbreytileika í fjármálatengdri þjónustu félagsins. Yfirtaka á bókhalds- og launaþjónustu PwC er grein af þeim meiði,“ segir í tilkynningunni.

Aðeins nokkrir mánuðir eru liðnir frá því að greint var frá kaupum ECIT Virtus á rekstri Húnabókhalds og var starfsemi félaganna sameinuð um áramótin.

Félagið er dótturfélag ECIT AS sem er með um 2.600 starfsmenn á yfir hundrað vinnustöðum í tíu löndum. Auk bókhalds og launavinnslu veitir félagið, sem skráð er í kauphöllinni í Osló, víðtæka ráðgjöf á sviði upplýsingatækni og viðskiptalausna.

Kaup ECIT AS á 51% hlut í Virtus fjármálum gengu í gegn í mars 2023 en félagið þjónar í dag yfir 600 viðskiptavinum í fjármálatengdum verkefnum en áætluð velta félagsins á þessu ári er um 500 milljónir króna.