Íslenska sprotafyrirtækið Ecosophy sigraði í frumgerðarkeppni á vegum Geimstofnunar Evrópusambandsins með OverView hugbúnaðarlausninni.

OverView er vefkerfi sem leyfir notendum að nálgast umhverfisgögn hvaðan sem er úr heiminum á hvaða tímaskala sem er. Ecosophy hlýtur þar með 4.5 milljónir króna í verðlaunafé og hefur auk þess hafið samstarf við stofnunina.

“Þetta er gott tækifæri til að sýna hvernig íslensk nýsköpun nýtist til að takast á við alþjóðlegar áskoranir. Við erum hluti af vaxandi geimiðnaði á Íslandi, sem hagnýtir upplýsingar frá gervihnöttum og líkönum til að bæta getu fólks til að taka góðar ákvarðanir um umhverfi sitt,” segir Smári McCarthy, framkvæmdarstjóri Ecosophy.

OverView segist opna á hagnýtingu mikils magns umhverfisgagna án þess að notendur þurfi sérstaka tæknikunnáttu. Notendur munu geta nýtt stór gagnasöfn, borið saman gögn og sett inn viðvaranir.

Kerfið verður aðgengilegt síðar á árinu í gegnum áskrift og sem stendur eru ýmis fyrirtæki á Íslandi og erlendis að prufukeyra hugbúnaðinn.