Carbfix hlaut á föstudaginn WIPO Global-verðlaunin 2025 í umhverfisflokki og fékk Edda Sif Pind Aradóttir, forstjóri Carbfix, einnig sérstaka viðurkenningu sem besti kvenfrumkvöðullinn.

Edda Sif veitti verðlaununum viðtöku við hátíðlega athöfn á allsherjarþingi Alþjóðahugverkastofnunarinnar (World Intellectual Property Organization – WIPO) í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Genf í Sviss.

WIPO Global-verðlaunin eru veitt sprotafyrirtækjum og litlum og meðalstórum nýsköpunarfyrirtækjum sem hafa nýtt sér skráningu hugverkaréttinda með árangursríkum hætti til að skapa áþreifanleg efnahagsleg og samfélagsleg verðmæti.

Carbfix er eitt tíu fyrirtækja sem hlýtur verðlaunin í ár og var valið úr hópi 780 fyrirtækja frá 95 löndum.

„Verðlaunin eru viðurkenning á þeirri miklu vinnu sem við höfum lagt í þróun og uppbyggingu Carbfix-tækninnar og þeirri markvissu hugverkastefnu sem við höfum mótað samhliða. Við erum stolt af því að hljóta slíka viðurkenningu á alþjóðavettvangi og að Ísland eigi fulltrúa í hópi framsæknustu hugverkaþróunarfyrirtækja heimsins,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir, forstjóri Carbfix.