Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi, segir umræðu sem alltof oft komi upp á þessum árstíma, þ.e. þegar félögin í Kauphöllinni birta afkomu síðasta árs, sé umræðan um ofurhagnað og háar arðgreiðslur til eigenda. Hún telur umræðuna villandi, þar sem oftast sé eingöngu fjallað um málið út frá einum hagsmunahópi þ.e. neytendum. „Það eru fjölmargir aðrir aðilar sem hafa hag af því að fyrirtækjum vegni vel, hafi burði til að greiða góð laun, vaxa og bæta sína þjónustu. Festi er mjög stór vinnuveitandi á Íslandi með um 2.600 starfsmenn að jafnaði, með starfsemi vítt og breitt um landið ásamt því að kaupa vörur og þjónustu af fjölmörgum öðrum fyrirtækjum, sem skapar atvinnu hjá þeim líka. Félagið er að langstærstum hluta í eigu lífeyrissjóða sem gera kröfu um góða ávöxtun, að öðrum kosti leitar fjármagnið annað,“ segir hún og bætir við:

„Þetta er jafnvægi sem þarf að viðhalda. Að geta borgað samkeppnishæf laun, að reksturinn skili ásættanlegri niðurstöðu til að standa undir frekari vexti, afborgunum af lánum og arði til eigenda, á sama tíma og vöruverði til neytenda er haldið niðri þannig að þeir velji að versla hjá okkur.“

Ásta er stolt af því að lífeyrissjóðirnir séu stærstu hluthafar Festi og félaginu sé þannig treyst fyrir að ávaxta fé landsmanna. „Umræðan er samt nánast aldrei sett í þetta samhengi heldur snýst oftar en ekki um meintan ofurhagnað og háar arðgreiðslur. Velgengni fyrirtækja og almennings haldast í hendur og neytendur velja hvar þeir versla.  Ef fyrirtækjum gengur illa verða lífskjör okkar allra fyrir vikið ekki nálægt þeim kröfum sem við sem þjóð gerum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.