Arnar Sigurðsson, eigandi Sante, gefur lítið fyrir fullyrðingar Ölmu Möller heilbrigðisráðherra um að aukið aðgengi að áfengi leiði sjálfkrafa til aukinnar áfengisneyslu. Hann spyr líka hvers vegna yfirvöld beiti sér einungis gegn einkareknum áfengisverslunum.

Alma Möller heilbrigðisráðherra var gestur í Morgunútvaktinni hjá RÚV þann 26. febrúar sl. þar sem hún talaði meðal annars um frjáls viðskipti með áfengi og vitnaði í skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem Arnar segir hlaðna staðreyndavillum og hálfsannleik.

Í pistli sem Arnar skrifaði og birtist á Vísi í morgun fer hann yfir nokkur atriði í skýrslunni, sem segir meðal annars að áfengisdrykkja sé meiri í Danmörku en annars staðar á Norðurlöndunum. Arnar bendir á að margir Svíar og Norðmenn versli sér áfengi í Danmörku þar sem gjöldin eru mun lægri. Það leiðir til aukinnar sölu en ekki endilega aukinnar neyslu.

„Ef málstaðurinn er vondur þá er gripið til lyga og hálfsannleika. Þetta snýst meira um trúarbrögð frekar en beinharðar skoðanir og oft er það þannig að þeir sem eiga erfiðast með sjálfsstjórn vilja bæta upp fyrir það með því að stjórna öðrum,“ segir Arnar.

Hann telur fráleitt að aukið aðgengi að ákveðinni vöru leiði sjálfkrafa til aukinnar neyslu hennar og spyr hvort aukið aðgengi að matvöruverslunum sé ástæða þess að fólk borði of mikinn mat. „Er lyfjamisnotkun vandamál vegna þess að við erum með svo mörg apótek?“

Arnar segir að ef hið opinbera raunverulega tryði eigin málaflutningi um aukið aðgengi þá væru Íslendingar ekki með heimsmet í fjölda vínbúða á hvern íbúa. Hann bendir líka á að ÁTVR fái fullt leyfi til að auglýsa í fjölmiðlum á meðan einkaaðilum er bannað að gera slíkt hið sama, þó að um sé að ræða nákvæmlega sömu vöru.

„Ef það væri eitthvað að marka Ölmu, heldur þú að hún væri ekki búin að gera athugasemd við fyrirkomulagið úti á Keflavíkurflugvelli? Verslun sem er búið að breyta í allsherjar áfengisranghala þar sem áfengi er flétt saman við leikföng, sælgæti og snyrtivörur. Þar er meira að segja skilti í komusalnum sem hvetur fólk til að fullnýta tollinn sinn og kaupa enn meira áfengi.“