Óli Jón Hertervig, skrifstofustjóri eignaskrifstofu borgarinnar, segir söluferlið á Perlunni á byrjunarstigi og það gæti verið margir mánuðir þangað til borgin fái endanlegt verðmat á eignina.
Óli segir borgina ekki vera að flýta sér í ferlinu en það sé vissulega kominn tími á að einkaaðilar taki við eigninni og þrói hana áfram.
„Það hefur verið ákall frá leigutakanum að halda áfram þróun þarna. Eins og kemur fram í erindi mínu til borgarráðs erum við ekkert endilega bestu aðilarnir til að þróa þetta áfram. Við erum búin að þróa þetta upp í fallega vöru eins og þetta er núna en miðað við aðsóknina, sem er gífurleg, má alveg þróa svæðið og húsið miklu meira,“ segir Óli Jón,
„Það er ekkert endilega spennandi fyrir borgina að leggja peninga í ferðaþjónustu fyrir einkaaðila enda eigum við alveg nóg með grunnskólana,“ segir Óli Jón.
300 milljón króna viðsnúningur
„Þegar við keyptum húsið var gífurlegur taprekstur á því en það hefur orðið 300 milljón króna viðsnúningur hjá okkur,“ segir Óli Jón, en borgin byggði milligólf inn í einn tankinn og heila aukahæð inni í Perlunni.
„Það er hægt að gera ýmislegt inni í Perlunni,“ segir Óli, sem vonast til að fasteignafélög sjái tækifæri inni í húsinu. Hann segir borgina þó ekki vera að flýta sér að selja húsið og verður Perlan ekki seld nema rétt tilboð fáist.
„Við erum ekki í neinu kapphlaupi, ef það selst ekki þá selst ekki,“ segir Óli Jón.
Dagur gerði ekki ráð fyrir teljandi eignasölu í apríl
Borgin tilkynnti fyrirhugaða sölu á Perlunni á sama tíma og árshlutauppgjör fyrir fyrri árshelming var kynnt, en 921 milljónar halli var af rekstri A-hlutans og 6,7 milljarða halli af rekstri A- og B-hluta borgarinnar á tímabilinu.
Á blaðamannafundi í lok apríl þegar ársreikningur Reykjavíkurborgar var kynntur – þar sem fram kom að 15,6 milljarða halli var á rekstri A-hlutans í fyrra – sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við Viðskiptablaðið að ekki væri gert ráð fyrir teljandi eignasölu í áætlunum borgarinnar.
Borgaryfirvöld sæju hins vegar fyrir sér að selja töluvert af lóðum. Í millitíðinni fullnýtti borgin sex milljarða króna lánalínu hjá Íslandsbanka en borgin hafði einnig dregið á 6 milljarða lánalínu hjá Landsbankanum að fullu.
Í síðasta skuldabréfaútboði Reykjavíkurborgar um miðjan ágúst var ákveðið að hafna öllum tilboðum í flokkana RVK 53 og RVKN 35 en aðeins bárust tilboð upp á 135 milljónir króna í þann fyrrnefnda og rétt ríflega milljarð í þann síðarnefnda.