Óli Jón Hert­ervig, skrif­stofu­stjóri eigna­skrif­stofu borgarinnar, segir sölu­ferlið á Perlunni á byrjunar­stigi og það gæti verið margir mánuðir þangað til borgin fái endan­legt verð­mat á eignina.

Óli segir borgina ekki vera að flýta sér í ferlinu en það sé vissu­lega kominn tími á að einka­aðilar taki við eigninni og þrói hana á­fram.

„Það hefur verið á­kall frá leigu­takanum að halda á­fram þróun þarna. Eins og kemur fram í erindi mínu til borgar­ráðs erum við ekkert endi­lega bestu aðilarnir til að þróa þetta á­fram. Við erum búin að þróa þetta upp í fal­lega vöru eins og þetta er núna en miðað við að­sóknina, sem er gífur­leg, má alveg þróa svæðið og húsið miklu meira,“ segir Óli Jón,

„Það er ekkert endi­lega spennandi fyrir borgina að leggja peninga í ferða­þjónustu fyrir einka­aðila enda eigum við alveg nóg með grunn­skólana,“ segir Óli Jón.

300 milljón króna viðsnúningur

„Þegar við keyptum húsið var gífur­legur tap­rekstur á því en það hefur orðið 300 milljón króna við­snúningur hjá okkur,“ segir Óli Jón, en borgin byggði milli­gólf inn í einn tankinn og heila auka­hæð inni í Perlunni.

„Það er hægt að gera ýmis­legt inni í Perlunni,“ segir Óli, sem vonast til að fast­eigna­fé­lög sjái tæki­færi inni í húsinu. Hann segir borgina þó ekki vera að flýta sér að selja húsið og verður Perlan ekki seld nema rétt til­boð fáist.

„Við erum ekki í neinu kapp­hlaupi, ef það selst ekki þá selst ekki,“ segir Óli Jón.

Dagur gerði ekki ráð fyrir teljandi eigna­sölu í apríl

Borgin til­kynnti fyrir­hugaða sölu á Perlunni á sama tíma og árs­hluta­upp­gjör fyrir fyrri árs­helming var kynnt, en 921 milljónar halli var af rekstri A-hlutans og 6,7 milljarða halli af rekstri A- og B-hluta borgarinnar á tíma­bilinu.

Á blaða­manna­fundi í lok apríl þegar árs­reikningur Reykja­víkur­borgar var kynntur – þar sem fram kom að 15,6 milljarða halli var á rekstri A-hlutans í fyrra – sagði Dagur B. Eggerts­son borgar­stjóri í sam­tali við Við­skipta­blaðið að ekki væri gert ráð fyrir teljandi eigna­sölu í á­ætlunum borgarinnar.

Borgar­yfir­völd sæju hins vegar fyrir sér að selja tölu­vert af lóðum. Í milli­tíðinni full­nýtti borgin sex milljarða króna lána­línu hjá Ís­lands­banka en borgin hafði einnig dregið á 6 milljarða lána­línu hjá Lands­bankanum að fullu.

Í síðasta skulda­bréfa­út­boði Reykja­víkur­borgar um miðjan ágúst var á­kveðið að hafna öllum til­boðum í flokkana RVK 53 og RVKN 35 en að­eins bárust til­boð upp á 135 milljónir króna í þann fyrr­nefnda og rétt ríf­lega milljarð í þann síðar­nefnda.