Samkvæmt markaðsrannsóknarfyrirtækinu Circana dróst sala í bandarískum sjoppum og bensínstöðum saman um 4,3% milli ára. Meðal þeirra vara sem hafa orðið mest fyrir áhrifum eru snarlvörur og sígarettur.
Sala á hrísgrjónakökum virðist hafa dregist mest saman en þar á eftir koma hnetur og þurrkað kjöt. Sala kælivara dróst þá saman um 7% og súkkulaðistykkjasala dróst einnig saman um 6%.
David Guerino, starfsmaður í Circkle K-verslun í úthverfi Chicago, segir í samtali við WSJ að fullorðnir viðskiptavinir séu farnir að flýta sér út úr versluninni áður en börnin fara að biðja um sælgæti. Þá séu þeir einnig hættir að kaupa rjómaís eða frosnar franskar, sem kosta nú 7 dali á hvern poka.
„Fólk hefur bara einfaldlega ekki efni á þessu lengur. Ef varan er ekki nauðsynleg þá vill fólk ekki kaupa hana,“ segir David.
Síaukin áhersla á hollara mataræði og óvissa vegna viðskiptastríða Donalds Trumps og áhrifa á verðlag hafa einnig haft áhrif á neysluhegðun Bandaríkjamanna.
Ramon Laguarta, framkvæmdastjóri PepsiCo, segir að á bensínstöðvum séu margir bílstjórar hættir að fara inn í verslunina eftir að búið er að dæla á bílinn. Margir reykingamenn, sem áður fyrr keyptu heilu kartonin, kaupa nú aðeins einn pakka í einu.