Verkfræðistofan EFLA landaði nýverið stóru orkuflutningsverkefni í Svíþjóð en umsvif fyrirtækisins þar í landi hafa aukist gríðarlega síðustu ár.
Um er að ræða hönnun nýrrar 400 kV háspennulínu sem er um 90 km löng og tengir saman borgirnar Hallsbergs og Timmersdala sem liggja mitt á milli Gautaborgar og Stokkhólms. Verkefnið mun vera það stærsta sem EFLA hefur landað í Svíþjóð til þessa.
„EFLA var eina fyrirtækið sem hlaut hæstu gæðaeinkunn í þessu útboði og leiddi það til þess að við fengum verkefnið. Þessi mikli árangur næst vegna áratuga reynslu EFLU á þessu sviði og vegna mikillar ánægju með störf okkar á þessu markaði á síðustu árum. Þetta er því mikil viðurkenning fyrir starfsfólk EFLU og gæði ráðgjafar fyrirtækisins,“ segir Steinþór Gíslason, framkvæmdastjóri EFLU AB, dótturfélags EFLU í Svíþjóð í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Fimm fyrirtæki í útboðinu
Verkefnið var boðið út af Svenska kraftnät sem á og rekur orkuflutningskerfi Svíþjóðar. Fimm fyrirtæki tóku þátt í útboðinu en EFLA
EFLA er eitt af sjö fyrirtækjum sem er með rammasamning um hönnun háspennulína fyrir Svenska kraftnät. Stærð samnings EFLU er um 370 milljónir króna og gildir til loka árs 2029.
„Svíar standa í mikilli uppbyggingu á orkuflutningskerfum landsins þessi árin og næstu áratugina. Sú þörf kemur til vegna margra ólíkra þátta. Háspennulínur eru víða komnar til ára sinna en það er einnig mikil þörf á uppbyggingu vegna aukinnar orkuþarfar og orkuskipta ásamt tilkomu nýrra orkugjafa eins og vindorku,“ segir í tilkynningu frá EFLU.
„EFLA vinnur verkefni á þessu sviði í mörgum löndum og staðan er sú sama á öllum þeim mörkuðum. Framundan er gríðarleg uppbygging og stór verkefni og EFLA ætlar að leggja sitt af mörkum til að stuðla að hönnun og uppbyggingu innviða með hagkvæmum og umhverfisvænum hætti og í sem mestri sátt við nærumhverfið,“ segir Steinþór.