Tilgangur vinnudeilusjóðs Eflingar er beinlínis að styðja við félagsmenn í verkföllum og verkbönnum. Þetta kemur fram í 2. grein reglugerðar sjóðsins. Sem kunnugt er þá hefur Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, lýst yfir að ekki verði greitt úr sjóðnum til félagsmanna Eflingar ef til verkbanns kemur.
Yfirgæfandi meirihluti aðildarfélaga Samtaka atvinnulífsins hefur samþykkt verkbann á starfsmenn Eflingar vegna verkfalla félagsmanna verkalýðsfélagsins. Eftir að SA efndi til kosninga um verkbann í byrjun vikunnar vakti athygli að Sólveig Anna lýsti yfir að félagsmenn hennar fengju ekki greitt úr vinnudeilusjóðnum. Orðrétt var haft eftir henni í fjölmiðlum:
„Efling ætlar ekki að axla ábyrgð á þessari sturlun. Efling ætlar ekki að tæma vinnudeilusjóðinn sinn til þess að borga fyrir glæpi atvinnurekenda ef að þeir ætla að sér að fara út á þessa braut, það mun ekki gerast.“
Í lögum Eflingar kemur skýrt fram í sjöttu grein að félagsmenn hafi skýran rétt til styrkja í sjóðum félagsins í samræmi við reglur þeirra.
Reglur vinnudeilusjóðsins hafa fram til þessa ekki virst aðgengilegar hvorki félagsmönnum né öðrum á heimasíðu verkalýðsfélagsins. Hins vegar birti Agnieszka Ewa Ziólkowska, fyrrum varaformaður Eflingar, reglugerðina um vinnudeilusjóðsins á Facebook síðu sinni fyrr í kvöld. Þar segir í annarri grein um markmið sjóðsins.
„Markmið sjóðsins er að styrkja félagsmenn í verkföllum eða verkbönnum þegar félagið á í vinnudeilum. Einnig er heimilt að greiða úr sjóðnum kostnað vegna vinnudeilna og styrkja önnur stéttarfélög sem eiga í vinnudeilum.“
Af þessu er ljóst að heimildir sjóðsins til að styrkja félagsmenn eru ríkar og er verkbann alls ekki undanskilið í þeim efnum eins og skýrt er kveðið á um. Færsla Agnieszku hefur nú þegar fengið mikil viðbrögð.