Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að stéttarfélagið muni ekki nýta sjóði sína til greiðslna til félagsmanna komi til verkbanns. Þetta segir hún í samtali við mbl.is.

„Það er ekki Efl­ing­ar að axla ábyrgð á sturlun for­ystu­manna Sam­taka at­vinnu­lífs­ins þannig að það verður ekki svo,“ er haft eftir Sólveigu.

Í tilkynningu á vef Eflingar segir að kjósi atvinnurekandi að beita verkbanni gegn starfsfólki sínu „er það alfarið á ábyrgð hans, ekki stéttarfélags“. Efling muni því ekki greiða neina styrki úr vinnudeilusjóðs vegna verkbanns.

„Komi til verkbanns mun Efling kalla saman félagsfólk til víðtækra mótmælaaðgerða gegn þeim atvinnurekendum sem beita því. Félagið biður félagsfólk að fylgjast með skilaboðum frá félaginu um það.“

Stjórn SA samþykkti í morgun að leggja til allsherjaratkvæðagreiðslu um verkbann á félagsmenn Eflingar sem starfa samkvæmt aðalkjarasamningi og veitinga- og gistihúsasamningi SA og Eflingar. Atkvæðagreiðsla um verkbannið hófst kl. 11 í dag og lýkur kl. 16 á miðvikudaginn.

Um er að ræða ótímabundið verkbann sem hefst á hádegi á fimmtudaginn, 2. mars ef kjarasmningar hafa ekki náðst eða vinnustöðvun ekki verið aflýst fyrir þann tíma. Verkbann SA myndi þýða að félagsfólk Eflingar mætir ekki til starfa og launagreiðslur falla niður.

Eigið fé vinnudeilusjóðs Eflingar nam tæpum 3 milljörðum króna í árslok 2021, samkvæmt síðustu ársskýrslu stéttarfélagsins. Til samanburðar var eigið fé vinnudeilusjóðs SA um 4,6 milljarðar í árslok 2021.

Efling stéttarfélag lýsti því yfir fyrir yfirstandandi verkfallsaðgerðir að öllu félagsfólki í verkfalli yrði greitt verkfallsstyrk að fjárhæð 25 þúsund krónur á dag miðað við 100% vinnu. Félagsmenn Eflingar eru 20.609 talsins.

Fréttin var uppfærð eftir að Efling sendi frá sér tilkynningu.