Efling hefur boðað til atkvæðagreiðslu um boðun vinnustöðvunar sem nær til allra starfa hjá öryggisgæslufyrirtækjum, hótelum og gistihúsum auk allrar vinnu við ræstingastörf hjá ræstingafyrirtækjum sem unnin eru samkvæmt kjarasamningi Eflingar og SA.
Um er að ræða ótímabundna vinnustöðvun sem hefst klukkan 12 þriðjudaginn 28. febrúar.
Atkvæðagreiðsla um verkfallsboðunina hefst kl. 12 fimmtudaginn 16. febrúar og lýkur kl. 18 mánudaginn 20. febrúar.
Framangreindar verkfallsboðanir ná m.a. til hótelkeðjanna Centerhotels og Keahótels, Securitas og Öryggismiðstöðvar Íslands auk ræstingafyrirtækja á borð við Sólar og Daga. Áætlaður fjöldi á kjörskrá sem verkfallsboðanirnar þrjá ná til er um 1.650.
Fyrstu verkfallsaðgerðir Eflingar, sem taka til sjö hótela Íslandshótela, hófust á þriðjudaginn síðasta, 7. febrúar. Að óbreyttu hefjast einnig verkföll á hótelum Berjaya og Edition-hótelinu annars vegar og hins vegar hjá starfsmönnum við vörubifreiðaakstur og olíudreifingu á miðvikudaginn, 15. febrúar.