Landsréttur hefur hafnað kröfu ríkissáttasemjara um afhendingu kjörskrár Eflingar vegna miðlunartillögu sem hann lagði fram í lok janúar. Landsréttur hefur því snúið við ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur sem komst að þeirri niðurstöðu að Eflingu bæri að afhenda ríkissáttasemjara félagatal sitt.
„Þetta er versti áfellisdómur yfir vinnubrögðum ríkissáttasemjara sem hægt var að hugsa sér. Ég treysti því að íslenska ríkið taki rækilega til í sínum ranni gagnvart kjaradeilu Eflingar og SA í ljósi þessarar niðurstöðu. Við krefjumst þess að Aðalsteinn Leifsson verði látinn segja sig samstundis frá deilunni. Við fögnum þessari niðurstöðu innilega,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í tilkynningu.
Í úrskurði Landsréttar segir að þó ríkissáttasemjara sé ótvírætt heimilt að eiga frumkvæði að því að efna til atkvæðagreiðslu og gefa fyrirmæli um framkvæmd hennar verði hvergi af lögum um stéttarfélög og vinnudeilur ráðið að aðila vinnudeilu sé skylt að afhenda honum kjörskrá sína áður en til slíkrar atkvæðagreiðslu kemur eða veita honum aðgang að henni.
Efling neitaði að afhenda félagatal sitt eftir að Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu þann 26. janúar síðastliðinn. Með miðlunartillögunni eiga allir meðlimir Eflingar að fá að kjósa um sömu launahækkanir og samið var um við 18 félög Starfsgreinasambandsins (SGS).
Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði á mánudaginn síðasta að Eflingu bæri að afhenda ríkissáttasemjara félagatal sitt. Héraðsdómur heimilaði jafnframt beina aðfarargerð í málinu. Efling kærði úrskurðinn samdægurs.