Efling stéttarfélag hefur sent erindi á forsvarsfólk 108 veitingastaða á höfuðborgarsvæðinu, sem samkvæmt nýjustu tiltæku upplýsingum Eflingar eru aðilar að SVEIT, samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði.

Í erindinu er forsvarsfólki veitingastaðanna gerð grein fyrir þeim aðgerðum sem Efling hyggst grípa til vegna svokallaðs kjarasamnings SVEIT við gervistéttarfélagið Virðingu, sem SVEIT stendur sjálft að baki.

Efling hefur undir höndum félagatal SVEIT sem dagsett er 11. september 2023. Það félagatal var lagt fram vegna dómsmáls SVEIT á hendur Eflingu fyrir Félagsdómi, sem SVEIT tapaði. Í erindi Eflingar, sem Sólveig Anna Jónsdóttir formaður undirritar, eru forsvarsmenn veitingastaðanna beðnir um að senda tilkynningu til Eflingar séu þeirra fyrirtæki ekki lengur aðilar að SVEIT.

„Svo sem áður hefur verið greint skilmerkilega frá er Virðing gervistéttarfélag, stýrt af atvinnurekendum úr röðum SVEIT og nánum fjölskyldumeðlimum þess, en ekki verkafólki. Svokallaður kjarasamningur milli Virðingar og SVEIT er, fyrir utan að samrýmast ekki ákvæðum íslenskra laga, til þess gerður að skerða réttindi starfsfólks til hagsbóta fyrir atvinnurekendur,“ segir í tilkynningu.

Aðgerðirnar sem Efling hyggst grípa til eru eftirfarandi:

  • Könnun á lagalegum grundvelli þess að kæra einstök aðildarfyrirtæki SVEIT til lögreglu, með vísan til ákvæða 26. kafla almennra hegningarlaga um auðgunarbrot. Brot á ákvæðum þessum geta varðað fangelsi allt að sex árum.
  • Opinber birting á nöfnum og vörumerkjum aðildarfyrirtækja SVEIT.
  • Auglýsingaherferð þar sem sérstök áhersla verður lögð á að birta nöfn og vörumerki aðildarfyrirtækja SVEIT.
  • Heimsóknir á vettvang þar sem starfsfólk aðildarfyrirtækja SVEIT verður upplýst um árásir SVEIT á launakjör og réttindi þeirra og upplýst um aðild viðkomandi fyrirtækis að SVEIT.
  • Aðgerðir á vettvangi þar sem viðskiptavinir aðildarfyrirtækja SVEIT verða upplýstir um árásir SVEIT á launakjör og réttindi starfsfólks og upplýstir um aðild viðkomandi fyrirtækis að SVEIT.
  • Stuðningur við mótmæli og lögmæta andspyrnu starfsfólks aðildarfélaga SVEIT á vettvangi gegn hvers kyns árásum SVEIT á launakjör og réttindi starfsfólks.
  • Stuðningur við allt starfsfólk veitingahúsa, hvort sem það hefur greitt til iðgjöld til Eflingar eða ekki, við gerð launakrafna þar sem krafist verður greiðslu launa í samræmi við löglegan samning Eflingar við Samtök atvinnulífsins. Slíkum kröfum verður fylgt eftir fyrir dómstólum og mun Efling birta opinberlega nöfn þeirra fyrirtækja sem svíkja starfsfólk um laun með þessum hætti.