Eflingarfélagar samþykktu úrsögn félagsins úr Starfsgreinasambandi Íslands með tæplega 70% greiddra atkvæða í allsherjaratkvæðagreiðslu sem lauk í dag. Efling mun því segja sig úr SGS og þar með öðlast beina aðild að Alþýðusambandi Íslands.

Samkvæmt tilkynningu frá Eflingu greiddu 1.051 félagsmenn atkvæði, eða um 5,03% af þeim 20.905 sem eru á kjörskrá. Af þeim voru 733 sem greiddu atkvæði með úrsögn en 292 sem greiddu gegn úrsögn. Alls kusu 26 að taka ekki afstöðu.

Tvo þriðju greiddra atkvæða þurfti til að samþykkja úrsögn samkvæmt lögum SGS. Formleg tilkynning um úrsögn verður send SGS á næstu dögum. Einnig verður óskað staðfestingar frá Alþýðusambandi Íslands um formlega aðild Eflingar að ASÍ.

„Ég tel það rétta ákvörðun hjá félagsfólki að kjósa að verja ekki háum upphæðum í árleg gjöld til Starfsgreinasambandsins, sem eins og fram hefur komið veitir Eflingu enga þjónustu. Ég fagna því líka að félagsfólk hafi stutt afstöðu forystu félagsins í málinu,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.