Samninganefnd Eflingar hefur slitið kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins og undirbýr nú verkfallsboðun. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tilkynnti þetta að loknum samningafundi með SA í hádeginu. Hún kveðst enn bjartsýn á að ná betri samningum en önnur félög, að því er kemur fram í frétt RÚV.
Efling hafnaði samningatilboði SA um helgina og lagði fram móttilboð, sem felur í sér taxtahækkanir upp á 40-59 þúsund krónur á mánuði auk 15 þúsund króna framfærsluuppbótar.
„Við fengum þau viðbrögð frá Samtökum atvinnulífsins að það væri ekki hægt að fallast á tilboðið okkar,“ hefur mbl.is eftir Sólveigu. „Samninganefndin fundar mjög fljótlega og ræðir þá næstu skref.“
Sólveig sagði einhug hafa verið innan um samninganefndar Eflingar um þá ákvörðun að slíta viðræðum. Ekki liggur fyrir hvenær verkfallsaðgerðir hefjast.
Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar, sagði við mbl.is í gær að félagsmenn stéttarfélagsins séu ekki spenntir fyrir verkfalli og því ekki skynsamlegt að grípa til slíkra aðgerða núna.
SA hefur þegar undirritað 14 mánaða kjarasamninga við SGS annars vegar og VR/LÍV og samflot iðn- og tæknigreina hins vegar. Samningar hafa því náðst við um 80 þúsund manns. „Slíkir kjarasamningar eru stefnumarkandi í eðli sínu og leggja því grunn að öllum kjarasamningum í þessari samningalotu, bæði á almennum og opinberum markaði,“ sagði SA í tilkynningu í síðustu viku.