Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA og forstöðumaður efnahagssviðs, segir lífskjör þjóða byggja fyrst og fremst á þeirri verðmætasköpun sem á sér stað í atvinnulífinu.

Í síðasta Viðskiptablaði var fjallað um leiðir til auka landsframleiðslu og skýrslu Ágústs Ólafs Ágústssonar, fyrrverandi þingmanns Samfylkingar og hagfræðings, um framlag menningar og listar til landsframleiðslunnar. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina hér.

„Til að sú verðmætasköpun sé sjálfbær þarf hún að byggja á réttum forsendum og grundvallast á því að verið sé að veita vörur og þjónustu sem fólk sækist eftir á hagkvæman og arðbæran hátt. Stjórnvöld hafa aldrei verið vel til þess fallin að miðstýra verðmætasköpun,“ segir Anna Hrefna aðspurð um almennt mikilvægi verðmætasköpunar.

„Þvert á móti hefur það sýnt sig að best gengur þegar atvinnustarfsemi er leyft að blómstra með hóflegri skattheimtu og skynsamlegu regluverki. Allt samfélagið nýtur góðs af því, hvort sem það er með verðmætum atvinnutækifærum eða tekjuöflun fyrir opinbera sjóði til að standa undir velferðarkerfinu,“ bætir Anna Hrefna við.

Að sögn Önnu Hrefnu eru fjölmörg söguleg dæmi sem sýna að efnahagsstefna skiptir verulegu máli þegar kemur að hagsæld þjóða

„Það er raunveruleg hætta fólgin í því að ganga of nærri rekstrargrundvelli mikilvægrar atvinnustarfsemi. Evrópusambandið hefur til að mynda áttað sig á því að kæfandi regluverk og íþyngjandi skattheimta eru ekki til þess fallin að bæta lífskjör almennings. Þar er nú yfirlýst markmið um að draga úr kvöðum á fyrirtæki svo evrópska hagkerfið geti náð vopnum sínum á ný og verið samkeppnishæft við aðrar þjóðir,“ segir Anna Hrefna.

Þá sé sérstaklega mikilvægt að hlúa vel að undirstöðuútflutningsgreinum í litlu opnu hagkerfi eins og á Íslandi enda á þjóðin mikið undir því að afla gjaldeyristekna til að standa straum af öllum þeim innflutningi sem við þörfnumst.

„Það væri því feigðarflan að vega sérstaklega að rekstrarumhverfi útflutningsgreina með aukinni skattheimtu, eins og hugmyndir voru uppi um í nýafstaðinni kosningabaráttu,“ segir Anna Hrefna