Rachel Reeves fjármálaráðherra Bretlands hefur gefið í skyn að efnahagsstefna Donald Trumps hafi að hluta til leitt til óvænts samdráttar breska hagkerfisins í janúar.

Samdrátturinn nam 0,1% í janúar og sagði Reeves í kjölfar birtingar talnanna að heimshagkerfið fyndi fyrir afleiðingum breytinga í alþjóðamálum, að því er kemur fram í grein hjá Telegraph.

Hún tjáði sig ekki beint um Bandaríkjaforseta en gaf í skyn að tollastefna hans skaði heimshagkerfið.

„Ég trúi á frjálsa og opna verslun og það gerir þessi ríkisstjórn líka. Við munum halda áfram að leggja áherslu á það,“ sagði Reeves.

Englandsbanki lækkaði stýrivexti á síðasta fundi sínum í byrjun febrúar, um 0,25 prósentustig.

Vextirnir standa nú í 4,5%, en tveir af níu nefndarmönnum peningastefnunefndar hefðu viljað sjá bankann lækka vexti enn meira, eða um hálfa prósentu.

Um var að ræða þriðju vaxtalækkun Englandsbanka frá því að hann hóf vaxtalækkunarferli í ágúst síðastliðnum.

Bankinn fundar í næstu viku, þann 20. mars. Greinendur áætla að vöxtum verði haldið óbreyttum.