„Það er algjörlega nauðsynlegt að bregðast við,“ segir Ulrike Malmendier, hagfræðingur og meðlimur í þýska efnahagsráðgjafaráðinu í viðtali við danska viðskiptablaðið Börsen sem birtist í morgun.

Efnahagsráðgjafaráðinu (d. Sachverständigenrat zur Begutachtung der gesamtwirtschaftlichen Entwicklung) var komið var á fót árið 1963 til að meta efnahagsstefnu stjórnvalda.

Vandamál sem hefðu átt að leysa fyrir áratugum

Malmendier, sem býr í Bandaríkjunum þar sem hún starfar sem prófessor við Berkeley-háskóla í Kaliforníu, hefur blendnar tilfinningar gagnvart því að tala um „brýnar umbætur.“

Hún viðurkennir að þörfin sé augljós, en bendir á að Þjóðverjar hafi vitað lengi að „gírkassinn væri bilaður“ og að hagkerfið þyrfti á „yfirhalningu“ að halda. Vandinn er hins vegar ekki nýtilkominn. „Við erum að tala um vandamál sem hafa þróast í áratugi,“ segir hún.

„Ég vildi óska að einhver hefði gripið til aðgerða fyrir 10 eða 20 árum, þegar allt leit vel út.“

Vinnuafl í forgangi

Malmendier segir að ein stærsta áskorunin sem Þýskaland standi frammi fyrir er vinnuaflið. Hagkerfið hefur ekki aðlagast breyttum lýðfræðilegum raunveruleika þar sem eldra fólki fjölgar og vinnufærum einstaklingum fækkar.

Fimm hagfræðingar Efnahagsráðgjafaráðsins þýska afhentu kanslara Olaf Scholz skýrslu sína um miðjan nóvember. Heiti hennar er: Það er brýn þörf á umbótum í stærsta hagkerfi Evrópu.
© epa (epa)

Við verðum að verða meira aðlaðandi fyrir bæði hæft og minna hæft vinnuafl,“ segir Malmendier. Hún bendir á að stjórnvöld hafi tekið skref í þessa átt með tillögum eins og „Vestur-Balkan reglunni,“ sem auðveldar fólki frá löndum eins og Albaníu, Kosovo og Serbíu að fá vinnu í Þýskalandi.

Þarf að endurskoða iðnaðinn

Þýska hagkerfið stendur einnig frammi fyrir samkeppnisvanda í iðnaði sínum. Malmendier segir að Kína hafi tekið fram úr Þýskalandi á mörgum sviðum, ekki aðeins í verði heldur einnig í gæðum. Gott dæmi um það sé framleiðsla á rafbílum.

Þýska efnahagslífið hefur einnig orðið fyrir áfalli vegna hækkandi orkuverðs, sem stafar meðal annars af stríðinu í Úkraínu.

„Þýskaland byggði hagkerfi sitt á ódýrri rússneskri gasi, en viðskiptamódelið virkar ekki lengur,“ segir Malmendier.

Stjórnmálamenn finna alltaf ástæður til að eyða peningum

Þýska „skuldabremsan“ (Schuldenbremse), sem takmarkar hversu mikið ríkið má skulda, hefur verið gagnrýnd. Reglan er mjög einföld: Þýskaland má ekki hafa halla á fjárlögum sem nemur meira en 0,35% af landsframleiðslu.

Afleiðingin? Of lítið hefur verið fjárfest í mikilvægum sviðum eins og menntun, innviðum og stafrænum lausnum í mörg ár.

„Leyfðu mér fyrst að segja: Það eru góðar ástæður fyrir því að við höfum skuldabremsuna,“ segir Malmendier.

Hún bendir á að stjórnmálamenn geti alltaf fundið góðar ástæður fyrir því að taka meiri lán og eyða meira fé. Segjum sem svo að farsímaframleiðsla sé í vandræðum. Þarna eru gríðarlega mörg störf undir. Stjórnmálamenn vilja bjarga iðnaðinum. Kannski er farsímafyrirtæki staðsett í kjördæmi þeirra.

„Skuldabremsan er tilraun til að setja upp handrið þannig að fólk falli ekki út fyrir borð og svo að við söfnum ekki upp miklum skuldum fyrir komandi kynslóðir,“ segir Malmendier.

Hún er ánægð með að Þýskaland sé ekki í stöðu Bandaríkjanna, þar sem ríkisskuldir eru gríðarlegar.

Veiki maðurinn í Evrópu?

Sumir hagfræðingar telja að Þýskaland hafi aftur orðið „veiki maðurinn í Evrópu“, rétt eins og þegar Vestur- og Austur-Þýskaland sameinuðustu árið 1990.

Christian Lindner, sem var rekinn af Olaf Scholz kanslara úr embætti fjármálaráðherra í byrjun nóvember, hefur reynt að gera lítið úr þeirri fullyrðingu.

Í janúar mætti hann á Alþjóðlega efnahagsþingið í Davos, þar sem hann sagði að þýska hagkerfið væri bara „þreyttur maður“ sem þyrfti „bolla af kaffi“.

Ulrike Malmendier þekkir þessa líkingu vel. Hún og margir aðrir fræðimenn hafa sína eigin útgáfu.

Þau kjósa að tala um þýska hagkerfið sem „gamlan mann“ og vísa þar til lýðfræðilegra áskorana í landinu, þar sem fleiri og fleiri fara á eftirlaun og færri taka þátt á vinnumarkaði.

Stjórnmálamenn – og komandi þingkosningar í febrúar – geta leikið mikilvægt hlutverk þegar kemur að því að endurvekja bjartsýni í þýska hagkerfinu.

Að horfa fram á við

Malmendier bendir á að Þýskaland þurfi skýra stefnu til að endurreisa traust fyrirtækja og almennings á hagkerfinu.

Ef ekkert er gert, spá hagfræðingar að hagvöxtur landsins verði aðeins 0,4% á ári fram til ársins 2028, sem er þriðjungur þess sem hann var á fyrsta áratug 21. aldar.

„Þýskaland þarf ekki stórar umræður um stefnubreytingar á tveggja vikna fresti,“ segir hún. „Við þurfum eina skýra stefnu og stöðugleika til framtíðar.“