Ís­lenska ríkið birti nafna­lista yfir alla þátt­tak­endur í út­boði ríkisins á hluta­bréfum í Ís­lands­banka í gærkvöldi en sam­kvæmt greiningu hag­fræðingsins Kon­ráðs S. Guðjóns­sonar var dæmi­gerður kaupandi var 62 ára karl­maður.

Kon­ráð, sem áður gegndi stöðu efna­hags­ráðgjafa ríkis­stjórnarinnar, greinir í pistli á vef sínum Ráð­deildinni að kaup­enda­hópurinn ein­kennist af fólki á efri miðaldri eða við lok starfs­ferils.

Um fjórðungur alls út­boðsins fór til fólks sem er 67 ára eða eldra.

Með greiningu á eftir­nöfnum kaup­enda telur Kon­ráð að karlar hafi fengið um tvöfalt meira út­hlutað en konur. Þeir sem bera eftir­nafn sem endar á -son eða -dóttir fengu sam­tals 93% út­hlutunar, og þar af tvö þriðju karlar.

En það sem stendur enn meira upp úr er að karlar fengu að meðaltali 18% meira út­hlutað en konur.

Aldurs­dreifing kaup­enda sýnir að helmingur út­boðsins fór til fólks á aldrinum 50 til 69 ára, en þátt­taka var sér­stak­lega mikil meðal 60–64 ára.

Þetta vekur at­hygli þar sem fólk á þeim aldri er yfir­leitt að hefja töku líf­eyris og tekjur hafa tekið að lækka.

„Enn áhuga­verðara er að skoða út­hlutunina eftir aldri í sam­hengi við eignastöðu. Eignir ein­stak­linga fara al­mennt vaxandi eftir aldri en síðan gengur fólk á eignirnar þegar komið er á líf­eyris­aldur, sem er yfir­leitt við 67 ár. Í því sam­hengi er áhuga­vert að út­hlutunin fer stig­vaxandi sam­hliða stiga­vaxandi eignastöðu. Um fjórðungi út­boðsins var út­hlutað til 67 ára og eldri,” skrifar Kon­ráð.

Þegar há­marks­út­hlutun, 20 milljónir króna, er skoðuð eftir aldri sést að 50-69 ára skera sig enn meira úr með ríf­lega 50% há­marks­út­hlutun.

„Í ljósi alls fjaðra­foksins sem varð við út­boðið í mars 2022 vakna óneitan­lega spurningar um sömu sann­girnis­sjónar­mið og þá var mikið haldið á lofti. Framan­greint bendir sterk­lega til að það hafi verið, eðli máls sam­kvæmt, fólk sem á veru­legar eignir þátt í út­boðinu og getur í dag selt bréfin með um 10% hagnaði á fáeinum dögum. Það verður í það minnsta áhuga­vert hvort eitt­hvað meira verði birt um hvað ein­kennir kaup­enda­hópinn,“ skrifar Kon­ráð.


Hann segir að lokum að aðal­málið sé að út­boðið gekk vel og ríkið eigi ekki lengur í Ís­lands­banka.