Íslenska ríkið birti nafnalista yfir alla þátttakendur í útboði ríkisins á hlutabréfum í Íslandsbanka í gærkvöldi en samkvæmt greiningu hagfræðingsins Konráðs S. Guðjónssonar var dæmigerður kaupandi var 62 ára karlmaður.
Konráð, sem áður gegndi stöðu efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar, greinir í pistli á vef sínum Ráðdeildinni að kaupendahópurinn einkennist af fólki á efri miðaldri eða við lok starfsferils.
Um fjórðungur alls útboðsins fór til fólks sem er 67 ára eða eldra.
Með greiningu á eftirnöfnum kaupenda telur Konráð að karlar hafi fengið um tvöfalt meira úthlutað en konur. Þeir sem bera eftirnafn sem endar á -son eða -dóttir fengu samtals 93% úthlutunar, og þar af tvö þriðju karlar.
En það sem stendur enn meira upp úr er að karlar fengu að meðaltali 18% meira úthlutað en konur.
Aldursdreifing kaupenda sýnir að helmingur útboðsins fór til fólks á aldrinum 50 til 69 ára, en þátttaka var sérstaklega mikil meðal 60–64 ára.
Þetta vekur athygli þar sem fólk á þeim aldri er yfirleitt að hefja töku lífeyris og tekjur hafa tekið að lækka.
„Enn áhugaverðara er að skoða úthlutunina eftir aldri í samhengi við eignastöðu. Eignir einstaklinga fara almennt vaxandi eftir aldri en síðan gengur fólk á eignirnar þegar komið er á lífeyrisaldur, sem er yfirleitt við 67 ár. Í því samhengi er áhugavert að úthlutunin fer stigvaxandi samhliða stigavaxandi eignastöðu. Um fjórðungi útboðsins var úthlutað til 67 ára og eldri,” skrifar Konráð.
Þegar hámarksúthlutun, 20 milljónir króna, er skoðuð eftir aldri sést að 50-69 ára skera sig enn meira úr með ríflega 50% hámarksúthlutun.
„Í ljósi alls fjaðrafoksins sem varð við útboðið í mars 2022 vakna óneitanlega spurningar um sömu sanngirnissjónarmið og þá var mikið haldið á lofti. Framangreint bendir sterklega til að það hafi verið, eðli máls samkvæmt, fólk sem á verulegar eignir þátt í útboðinu og getur í dag selt bréfin með um 10% hagnaði á fáeinum dögum. Það verður í það minnsta áhugavert hvort eitthvað meira verði birt um hvað einkennir kaupendahópinn,“ skrifar Konráð.

Hann segir að lokum að aðalmálið sé að útboðið gekk vel og ríkið eigi ekki lengur í Íslandsbanka.